Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2007 Forsætisráðuneytið

A-242/2007 Úrskurður frá 8. febrúar 2007

ÚRSKURÐUR

Hinn 8. febrúar 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-242/2007.

 

Kæruefni

Hinn 16. nóvember 2006 kærði [...] synjun Vinnumálastofnunar, dags. 17. október sl., um aðgang að upplýsingum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks fyrir árin 2004, 2005 og 2006.
Með bréfi, dags. 17. nóvember sl., var kæran kynnt Vinnumálastofnun og stofnuninni veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til 28. nóvember. Jafnframt var þess óskað að stofnunin léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran lýtur að innan sama frests. Umsögn Vinnumálastofnunar, dags. 30. nóvember, barst nefndinni 4. desember, þar sem kröfu kæranda er hafnað með tilvísun til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Jafnframt fylgdi bréfi stofnunarinnar yfirlit yfir greiðslur til fiskvinnslufyrirtækja vegna hráefnisskorts árin 2004, 2005 og 2006, dags. 27. nóvember 2006.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um umsögn Vinnumálastofnunar 5. desember sl. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni 11. desember.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með tölvubréfi 12. október sl. óskaði kærandi eftir upplýsingum Vinnumálastofnunar um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks samkvæmt lögum nr. 51/1995 um greiðslur sjóðsins vegna fiskvinnslufólks. Óskaði kærandi eftir upplýsingunum í formi excelskjals fyrir árin 2004, 2005 og 2006 (janúar-ágúst) og að fram kæmi „... kennitala fyrirtækis, fjöldi (mann)daga sem greitt er fyrir og heildarfjárhæð til hvers fyrirtækis á hverju ári.“
Með vísun til 5. gr. upplýsingalaga hafnaði Vinnumálastofnun beiðni kæranda með bréfi, dags. 17. október sl.
Af hálfu kæranda er því hafnað að umrædd gögn eigi að vera leynileg eða að þau varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra sem fá greiðslur úr sjóðnum. Um sé að ræða takmarkaðar greiðslur sem fari eftir mjög ströngum skilyrðum. Þá hafi ekki verið gefinn kostur á að fá hluta af upplýsingunum, t.d. með því að kennitala fiskvinnslufyrirtækis verði felld út úr svarinu, þannig að ekki verði hægt að rekja greiðslurnar til einstakra fyrirtækja.
Í umsögn Vinnumálastofnunar kemur fram að synjun stofnunarinnar sé byggð á 5. gr. upplýsingalaga. Að mati stofnunarinnar varði umbeðin gögn slíka fjárhags- og viðskiptahagsmuni þeirra fyrirtækja sem um ræðir að sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari nema fyrir liggi samþykki þeirra. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu fyrirtækja sem óheimilt sé að veita aðgang að. Vegi þessir hagsmunir þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að þeim. Að því er varði óskir kæranda um að honum verði veittur aðgangur að hluta upplýsinganna, t.d. með því að kennitölur séu felldar brott þannig að ekki sé hægt að rekja greiðslur til einstakra fyrirtækja, er tekið fram að kærandi hafi sérstaklega beðið um upplýsingarnar með kennitölum viðkomandi aðila.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Í máli þessu reynir á aðgang kæranda að upplýsingum um greiðslur Vinnumálastofnunar til fyrirtækja samkvæmt lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistrygginga vegna fiskvinnslufólks. Með lögunum er gert ráð fyrir því að greiða skuli fiskvinnslufyrirtækjum atvinnuleysisbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna fiskvinnslufólks sem gert hefur kauptryggingarsamninga samkvæmt almennum kjarasamningum. Synjun Vinnumálastofnunar er byggð á síðari málslið 5. gr. upplýsingalaga.
Fyrir liggur að Vinnumálastofnun hefur tekið saman yfirlit yfir greiðslur vegna hráefnisskorts fyrir árin 2004, 2005 og 2006 sem dagsett eru 27. nóvember 2006. Á yfirlitunum eru greiðslurnar greindar eftir heiti fyrirtækis, fjölda starfsmanna, skráðum dögum, greiddum tíma og samtölu greiðslna.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. laganna. Samkvæmt síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í lögskýringargögnum við upplýsingalögin segir m.a. svo um þetta ákvæði: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“ Af lögskýringargögnum við upplýsingalögin verður jafnframt ráðið að ráð sé fyrir því gert að metið sé í hverju og einu tilviki hvort þeir hagsmunir séu fyrir hendi sem þessum takmörkunum er ætlað að vernda. Í athugasemdum við II. kafla frumvarps þess er varð að upplýsingalögum segir svo: „Aðgangur almennings að upplýsingum verður almennt ekki takmarkaður á grundvelli ákvæða 5.-6. gr. nema að undangengnu mati stjórnvalds á því hvort hætta sé á að þeir hagsmunir, sem þar eru tilgreindir, skaðist ef upplýsingar eru veittar.“
Af hálfu Vinnumálastofnunar er með almennum hætti vísað til þess að um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- og samkeppnisstöðu umræddra fyrirtækja, án þess að það sé skýrt nánar. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni þeirra gagna sem beiðni kæranda tekur til. Vissulega má við því búast að almenn vitneskja um greiðslur atvinnuleysisbóta til fiskvinnslufyrirtækja geti varðað fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga. Það sjónarmið að greiðslur bótanna verði að fara leynt verður þó að mati nefndarinnar að jafnaði að víkja fyrir þeirri meginreglu upplýsingalaga að aðgangur að upplýsingum um úthlutun fjár úr opinberum sjóðum í formi óafturkræfra framlaga og styrkja sé heimil nema lög mæli á annan veg, sbr. dóm Hæstaréttar 8. október 1998 (H 1998: 3096). Verður ekki séð að hagsmunir þeirra aðila sem fengið hafa framlög og styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli þeirra laga sem um sjóðinn gilda vegi þyngra en réttur almennings á að fá um það upplýsingar. Samkvæmt þessu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun sé skylt veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.
Samkvæmt. 3. gr. laga nr. 51/1995 skulu starfsmenn Vinnumálastofnunar „... fara með allar upplýsingar sem þeir komast að við framkvæmd á lögum þessum og varða persónuleg málefni eða rekstur fyrirtækja sem trúnaðarmál.“ Af hálfu Vinnumálastofnunar er ekki með beinum hætti vísað til þessara fyrirmæla, enda taka þau til upplýsinga sem starfsmenn Vinnumálastofnunar afla vegna starfa sinna, en beiðni kæranda varðar ekki slíkar upplýsingar.

 

Úrskurðarorð:

Vinnumálastofnun skal veita kæranda, [...], aðgang að yfirlitum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna hráefnisskorts árin 2004, 2005 og 2006, dagsettum 27. nóvember 2006.

 


Páll Hreinsson
formaður

 

                                              Friðgeir Björnsson                                          Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum