Hoppa yfir valmynd
10. október 2006 Forsætisráðuneytið

A-233/2006 Úrskurður frá 27. september 2006

ÚRSKURÐUR

Hinn 27. september 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-233/2006.


Kæruefni

Með skriflegri kæru, dags. 19. apríl sl., kærði [...] fyrir hönd [A] hf. og [B] hf. synjun Reykjavíkurborgar, dags. 22. mars sl. og Ríkiskaupa 2. apríl sl., á beiðni kærenda um að fá í hendur afrit samnings er Austurhöfn-TR ehf. gerði við [C] þann 9. mars sl., um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar á Austurbakka Reykjavíkurhafnar.
Með bréfi, dags. 9. maí sl., var kæran kynnt Reykjavíkurborg og henni veittur frestur til 23. maí sl. til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Í tölvupósti borgarritara 31. maí sl. segir að rökstuðningur fyrir afstöðu Reykjavíkurborgar komi fram í bréfi lögfræðings borgarstjórnar 22. mars sl. Með bréfi 1. júní sl. áréttaði úrskurðarnefndin fyrri ósk sína við Reykjavíkurborg um að nefndinni yrðu látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran laut að og að þau bærust henni fyrir 9. júní sl. Með tölvupósti borgarritara sama dag. er upplýst að eftir samráð eigenda Austurhafnar-TR ehf. hefði niðurstaðan orðið sú að Ríkiskaup afhentu nefndinni samninginn. Tekið er fram að samningseintak Reykjavíkurborgar sé geymt í skjalasafni borgarinnar
Með bréfi 1. júní sl. veitti úrskurðarnefndin Ríkiskaupum frest til 12. júní sl. til þess að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran laut að. Í svari Ríkiskaupa 12. júní sl. kemur fram að samningurinn sé upp á 115 blaðsíður fyrir utan viðauka og fylgiskjöl sem rúmast í fimm stórum möppum. Mappa 1 geymi meginmál samningsins, mappa 2 viðauka, mappa 3 samningskaupalýsingu (Decriptive Documents) og mappa 4 og 5 tilboð [C].
Með bréfi, dags. 2. júní sl. var kæran kynnt Austurhöfn TR ehf. og þess óskað að félagið gerði úrskurðarnefndinni grein fyrir því hvort það teldi eitthvað vera því til fyrirstöðu að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum og ef svo væri með hvaða hætti afhending gagnanna gæti skaðað hagsmuni félagsins. Umsögn Austurhafnar-TR ehf. um kæruna barst nefndinni með bréfi félagsins, dags. 12. júní sl.
Hinn 21. júní sl. óskaði úrskurðarnefndin eftir því að [C] gerði úrskurðarnefndinni grein fyrir því, hvort það teldi eitthvað vera því til fyrirstöðu að veita kærendum aðgang að umbeðnum gögnum og ef svo væri með hvaða hætti afhending ganganna gæti skaðað hagsmuni félagsins. Barst umsögn félagsins með bréfi lögmanns þess 28. júní sl.
Með bréfi, dags. 21. júní sl., var kærendum gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir Ríkiskaupa og Austurhafnar TR ehf. Jafnframt var kærendum með símbréfi 29. júní sl., gefinn kostur á að senda úrskurðarnefndinni athugasemdir sínar í tilefni af umsögn [C] frá 28. júní sl. Athugasemdir kæranda við umsagnirnar bárust nefndinni með bréfi lögmanns þeirra, dags. 30. júní sl.
Með bréfum, dags. 6. júlí sl., óskaði úrskurðarnefndin eftir því að Austurhöfn-TR ehf., [C], og Ríkiskaup skýrðu nánar hver einstök efnisatriði umrædds samnings ættu að þeirra mati að vera undanþegin aðgangi, sbr. 3. og 5. gr. upplýsingalaga. Var þess óskað að umbeðin svör bærust nefndinni fyrir 17. júlí sl. og með þeim hætti að nefndinni yrði sent eintak samningsins á íslensku þar sem niðurfellingar væru auðkenndar. Óskir úrskurðarnefndarinnar voru endurteknar gagnvart [C] og lögmanni félagsins með bréfum, dags. 18. júlí sl. Svör Austurhafnar-TR ehf. og Ríkiskaupa bárust nefndinni með bréfum, dags. 17. júlí sl. Svör [C] bárust nefndinni með bréfi lögmanns félagsins, dags 25. júlí 2006.
Með bréfi til Ríkikaupa, dags. 9. ágúst sl., ítrekaði nefndin fyrri beiðni sína um að stofnunin skýrði nánar hver einstök efnisatriði umrædds samnings ættu að þeirra mati að vera undanþegin aðgangi, sbr. 3. og 5. gr. upplýsingalaga. Svarbréf Ríkiskaupa er dagsett 29. ágúst sl. Með bréfum, dags. 4. september sl., veitti úrskurðarnefndin Austurhöfn-TR ehf. og [C] frest til 15. september sl. til þess að koma á framfæri frekari athugasemdum í tilefni af framangreindu bréfi Ríkiskaupa. Úrskurðarnefndinni hafa ekki borist frekari athugasemdir frá Austurhöfn-TR ehf. og [C].
Nefndarmennirnir Páll Hreinsson og Sigurveig Jónsdóttir eru vanhæf til meðferðar þessa máls, sbr. 2. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og tóku varamenn þeirra, Helga Guðrún Johnson og Skúli Magnússon, því sæti í nefndinni.

Málsatvik

Atvik málsins eru í stuttu máli þau að í apríl 2004 óskaði Ríkiskaup fyrir hönd Austurhafnar-TR ehf., sem er í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, eftir þátttakendum í forvali 13484 þar sem fyrirhugað var að efna til samningskaupa um veitingu sérleyfis til að byggja, eiga og reka tónlistarhús, ráðstefnumiðstöð og hótel, ásamt tilheyrandi bílastæðum, við austurhöfnina í Reykjavík. Af hálfu verkkaupa Austurhafnar-TR ehf. var stefnt að því að gerður yrði sérleyfissamningur við einn bjóðanda. Meðal þeirra sem uppfylltu lágmarksskilyrði forvalsgagna voru kærendur og [C], samstarfshópur þriggja fyrirtækja: [D] hf., [E] hf. og [F] hf. Hinn 9. mars sl. var undirritaður samningur milli Austurhafnar-TR ehf. og [C] í eigu [E] hf. og [F] hf. um byggingu tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels við Austurhöfn í Reykjavík.
Með bréfi, dags. 16. mars sl., fór lögmaður kærenda þess á leit við Reykjavíkurborg að fá afrit af framangreindum samningi sem einnig var samþykktur í borgarráði 9. mars sl. f.h. Reykjavíkurborgar vegna þeirra skuldbindinga sem í honum fólust fyrir borgina. Sama dag óskaði lögmaður kærenda einnig eftir því að Ríkiskaup léti kærendum í té afrit samningsins.
Með bréfi Reykjavíkurborgar, 22. mars sl., synjaði Reykjavíkurborg lögmanni kærenda um afrit samningsins með vísan til bókunar í borgarráði 9. mars sl., um að samningurinn hafi verið kynntur þar sem trúnaðarmál af viðskiptaástæðum. Svarbréfi Reykjavíkurborgar fylgdi yfirlit yfir efni samningsins, sem kynnt hafði verið á fundi borgarstjórnar 21. mars sl.
Ríkiskaup synjaði beiðni lögmanns kæranda um afrit samningsins með bréfi, dags. 2. apríl sl. með vísan til þess að stofnunin væri bundin trúnaði við [C] sem og aðra bjóðendur í samræmi við ákvæði í samningskaupalýsingu, sem Ríkiskaup og Austurhöfn-TR ehf. hefðu undirritað.
Til stuðnings kæru sinni vísar kærandi til 3. og 9. gr. upplýsingalaga, en um sé að ræða opinber gögn sem varði kærendur. Gögnin hafi verulega þýðingu um sönnun og við mat á því hvort gætt hafi verið jafnræðis í samningskaupaferlinu, svo sem áskilið sé í 11. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup. Þau lög takmarki ekki aðgang aðila máls að gögnum í vörslum stjórnvalda. Til stuðnings kröfu sinni vísa kærendur ennfremur til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-71/1999.
Í umsögn Ríkiskaupa, 12. júní sl., kemur fram að umræddur samningur geymi ekki neinar upplýsingar um kærendur og teljist þeir því ekki aðilar málsins í skilningi 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál áður komist að sambærilegri niðurstöðu í úrskurði 25. maí 1999 í máli A-74/1999. Í umsögn Ríkiskaupa er finna lýsingu á efnisatriðum samningsins. Sé það afstaða stofnunarinnar og aðila samningsins, Austurhafnar-TR ehf., Reykjavíkurborgar og [C] að efni hans sé þess eðlis, að mestu leyti, að eðlilegt sé að leynt fari. Tekið er fram að samningskaupalýsingin sem sé hluti samningsins, sbr. mappa 3, sé þegar til hjá kærendum og öðrum og ekki hluti þeirra gagna sem fara eigi leynt. Um takmarkanir á upplýsingarétti fari eftir 5. gr. upplýsingalaga. Um sé að ræða einkaréttarlegan samning milli tveggja hlutafélaga sem sé svo viðkvæmur að hann eigi ekki erindi við allan þorra manna. Skipti ekki máli í því sambandi að Austurhöfn TR ehf. sé í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar. Í samningnum sé fjallað á mjög ítarlegan hátt um fjárhagslegar skuldbindingar, viðskiptaleg málefni og útfærslu [C] á einstökum verkþáttum í tengslum við verkefnið. Um sé að ræða viðskiptaleg málefni og lausnir [C] sem hvorki sé eðlilegt né réttlætanlegt að séu birtar öllum almenningi. Með því væri vegið að samkeppnisstöðu félagsins í veigamiklum atriðum. Sé það sérstaklega mikilvægt í tengslum við verkefnið sem hér um ræðir þar sem það komist ekki í fulla framkvæmd fyrr en eftir rúmlega 3 ár. Það myndi raska stöðu [C] verulega ef samkeppnisaðilar og almenningur allur hefðu á þeim langa tíma aðgang að ofangreindum upplýsingum. Er það afstaða Ríkiskaupa að samningurinn í heild sé undanþeginn upplýsingarétti að undanskilinni möppu 3.
Í umsögn Austurhafnar TR-ehf. 12. júní sl. segir að ekki sé gerð athugasemd við að Ríkiskaup afhendi nefndinni samning Austurhafnar-TR ehf. og [C] í trúnaði, en tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í ofangreindri umsögn Ríkiskaupa að óæskilegt og óeðlilegt sé að kærendur fái aðgang að umbeðnum gögnum.
Í umsögn lögmanns [C] 28. júní sl. segir að um upplýsingarétt kærenda fari eftir 3. gr. upplýsingalaga en ekki 9. gr. þeirra laga þar sem kærendur teljist ekki aðilar að umræddum samningi, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. A-74/1999, A-133/2001 og A-180/2004. Þá er í umsögninni tekið fram að 5. gr. upplýsingalaga standi því í vegi að kæranda verði veittur aðgangur að samningnum, þar sem í honum sé að finna upplýsingar um atvinnu- og viðskiptaleyndarmál [C] og upplýsingar er varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni samstarfsaðila [C], auk þess sem félagið hafi skuldbundið sig gagnvart samstarfsaðilum til þess að halda slíkum upplýsingum leyndum, er hér m.a. vísað til úrskurðarnefndarinnar í máli A-74/1999. Við mat á því hvort veita skuli aðgang að gögnum sem innihaldi mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila fari fram hagsmunamat. Ekki verði séð að kærendur eða aðrir hafi mikla hagsmuni af því að fá afrit af samningnum. Í umsögninni er enn fremur vísað til þess að rétt sé að skýra ákvæði 7. gr. upplýsingalaga þannig að komi upplýsingar sem falli undir 4.-6. gr. upplýsingalaga ekki fram í afmörkuðum hluta skjala heldur í meiri hluta þess verði skjalið í heild sinni undanþegið upplýsingarétti almennings, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. A-221/2005. Leggst félagið gegn því að kærendum verði veittur aðgangur eða afrit af umræddum samningi. Verði ekki fallist á staðfestingu synjunar eigi einungis að veita aðgang að hluta samningsins sem nefndin telji að þjóni þeim markmiðum sem kærendur styðja kæru sína við.
Eins og áður segir var kærendum gefinn kostur á að senda nefndinni athugasemdir sínar í tilefni af umsögnum Ríkiskaupa og Austurhafnar TR-ehf. með bréfi nefndarinnar, dags. 21. júní 2006. Þá var kærendum með símbréfi 29. júní enn fremur gefinn kostur á að senda nefndinni athugasemdir sínar í tilefni af umsögn lögmanns [C], dags. 28. júní sl. Athugasemdir kærenda vegna framangreindra umsagna bárust nefndinni með bréfi lögmanns kærenda, dags. 30. júní sl. Um aðild sína vísa kærendur til kæru sinnar frá 22. febrúar 2006 og að þeir hafi verið aðilar að tilboðsgerð í samningskaupaferli sem Ríkiskaup annaðist f.h. einkafyrirtækis, sem ríkið ásamt Reykjavíkurborg séu eigendur að. Samningurinn gæti því tæpast talist einkaréttarlegur. Að mati kærenda sé eðlilegt að samningur sem gerður er við þann sem hlutskarpastur reynist í samningskaupaferli skuli vera hlutaðeigendum opinn. Sé slíkt eina leiðin fyrir aðra tilboðsgjafa til þess að sjá að farið hafi verið að reglum og forskrift og að ekki hafi verið vikið frá tilboði við samningsgerð. Í athugasemdum kærenda er því enn fremur hafnað að verði samningurinn birtur aðilum ógni það sambærilegum verkefnum í framtíðinni.
Í bréfaskiptum úrskurðarnefndarinnar er hófust með bréfum úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júlí sl. og lauk með bréfi nefndarinnar til Ríkiskaupa 4. september sl. var þess óskað að Ríkiskaup Austurhöfn-TR ehf. og [C] tilgreindu í umræddum samningi þau gögn sem þessir aðilar teldu að ættu að vera undanþegin aðgangi, sbr. 3. og 5. gr. upplýsingalaga. Lauk þessum bréfaskiptum með bréfum nefndarinnar til Austurhafnar-TR ehf. og [C], dags. 4. september sl. Í bréfi Ríkiskaupa 9. ágúst 2006 er því lýst að stofnunin sé ekki aðili að samninginum sjálfum og því ekki bær til þess að setja fram skoðun á því hver efnisatriði samningsins ættu að vera undanþegin aðgangi, skv. 3. og 5. gr. upplýsingalaga. Er það mat Ríkiskaupa að [C] sé sá aðili sem vernda þurfi þegar tekin sé afstaða til þess hvort og þá hversu mikið af samningnum eigi að birta. Í bréfi lögmanns [C], dags. 25. júlí sl., kemur fram að félagið telji að þær niðurfellingar sem nauðsynlegar séu, til að vernda mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni félagsins og samstarfsaðila þess, taki yfir svo stóran hluta samningsins að ekki sé unnt að veita aðgang að honum. Með því að tiltaka nauðsynlegar niðurfellingar úr samningnum væri félagið óbeint að samþykkja birtingu á öðru efni samningsins, en samningsaðilar hefðu heitið að segja ekki frá efni hans. Þannig geti félagið ekki samþykkt birtingu hluta hans, jafnvel ekki á óbeinan hátt. Muni félagið því ekki taka afstöðu til mögulegra niðurfellinga úr samningnum heldur ítrekar þá afstöðu sína að ekki beri að veita aðgang að honum.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga taka lögin til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þar með falla Ríkiskaup og Reykjavíkurborg ótvírætt undir lögin, sbr. enn fremur úrskurð nefndarinnar í málum A-71/1999 og A-228/2006. Ríkiskaup og Reykjavíkurborg hafa synjað kærendum um afrit samnings sem gerður var milli Austurhafnar-TR ehf. og [C] 9. mars sl. um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar. Samningurinn hefur verið lagður fyrir borgarstjórn Reykjavíkurborgar til staðfestingar vegna þeirra skuldbindinga sem í honum felast fyrir borgina.
Ákvæði upplýsingalaga gera ekki greinarmun á því hvers eðlis sú starfsemi er sem stjórnvöld hafa með höndum. Af þeim og lögskýringargögnum leiðir að lögin taka ekki einvörðungu til þess þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt og skyldu manna heldur og til hvers konar þjónustustarfsemi, samningsgerðar og annarrar starfsemi hins opinbera. Þá gera lögin ekki ráð fyrir því að sá sem óskar aðgangs að upplýsingum hjá stjórnvöldum þurfi að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fá upplýsingarnar.
Þar sem kærendur eru ekki aðilar að umræddum samningi ber að fjalla um aðild þeirra að honum eða um upplýsingar úr honum á grundvelli II. kafla upplýsingalaga, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum A-180/2004 og A-133/2001.
Eins og kæran er úr garði gerð lítur úrskurðarnefndin svo á að hún nái einvörðungu til samningsins sem undirritaður var 9. mars 2006 en ekki til þeirra fylgigagna sem í honum er getið um.


2.
Um rétt almennings til upplýsinga fer eftir 3. gr. upplýsingalaga að gættum takmörkunum 4.-6. gr. laganna eftir því sem við getur átt. Með hliðsjón af markmiði laganna ber að skýra undantekningar frá þessari meginreglu þröngt. Í máli þessu er deilt um hvort ákvæði 5. gr. upplýsingalaga takmarki rétt kæranda til aðgangs að umræddum samningi.
Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila ... sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á". Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskipta-hagsmuni.“
Jafnvel þótt upplýsingar, sem fram koma í umræddum samningi geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli gera upplýsingalög ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að því búnu að meta hvort vegi þyngra á metum hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344). Koma þessi sjónarmið m.a. fram í úrskurðum nefndarinnar í málum A-220/2005 og A-206/2005. Við mat á hagsmunum almennings af því að fá aðgang að umræddum samningi verður að hafa í huga að með samningnum eru ríki og Reykjavíkurborg að ráðstafa opinberu fé og eignum.
[C] hefur lýst því yfir að það leggist gegn afhendingu samningsins. Vísar félagið til þess að í honum komi fram upplýsingar um atvinnu- og viðskiptaleyndarmál félagsins, þ. á m. fjármögnun og ýmsar lausnir sem feli í sér verðmæta þekkingu og séu afrakstur mikillar vinnu. Þá geymi samningurinn enn fremur mikilvæga hagsmuni samstarfsaðila félagsins svo sem hönnuða og listamanna. Auk þess hafi samningsaðilar heitið því að ljóstra ekki upp efni samningsins. Af hálfu [C], Austurhafnar-TR ehf. eða Ríkiskaupa hafa ekki verið tilgreindir nánar eða sérstaklega mikilsverðir viðskipta- eða fjárhagshagsmunir sem girða eigi fyrir aðgang almennings að samningnum eða einstökum hlutum hans.
Að því er varðar tilvísun [C] til trúnaðar samningsaðila um efni samningsins, sbr. 21. kafla hans skal tekið fram að slík ákvæði geta ekki komið í veg fyrir aðgang kæranda að honum á grundvelli upplýsingalaga, eins og reyndar verður ályktað af í samningsákvæði 21.2.5, sbr. enn fremur úrskurði nefndarinnar í málum A-133/2001 og A-232/2006.

3.
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér samning Austurhafnar-TR ehf. og [C], dags. 9. mars 2006. Samningurinn samanstendur af 30 köflum og er 115 síður að lengd. Í honum er lýst sérleyfi [C], sem hér er einnig nefndur verksali til að byggja og reka tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð og hvernig sérstök rekstrar- og fasteignafélög verða af hans hálfu stofnuð um starfsemina. Jafnframt er lýst byggingu og rekstri hótels og bílageymslu auk annarra framkvæmda tengda uppbyggingunni. Þá er enn fremur fjallað um réttindi og skyldur samningsaðila á byggingartímanum og við rekstur þeirrar starfsemi sem þar á sér stað að honum loknum og samskiptum aðila við sérfræðinga og hönnuði. Í samningnum er ennfremur kveðið á um fjárframlög kauprétt og forkaupsrétt aðila. Samningurinn er margþættur þar sem samningsskyldur þeirra sem að verkinu koma er lýst auk tilvísana til fjölda undirskjala um skyldur aðila og nánara fyrirkomulag. Verkkaupi eru ríki og Reykjavíkurborg, sem hafa ennfremur stofnað saman einkahlutafélag, Austurhöfn-TR efh. til þess að efna sameiginlegar samningsskuldbindingar sínar og hafa eftirlit með framkvæmd verksins og fyrirhuguðum rekstri. Kærendur hafa takmarkað kæru sína við aðgang að ofangreindum samningi.
Við mat á því hvort takmarka beri aðgang almennings að samningum, sbr. 2. ml. 5. gr. upplýsingalaga, þykir rétt að rekja eftirfarandi ákvæði samningsins og afstöðu nefndarinnar til þeirra eftir því sem við á. Í 1. kafla er almenn kynning á efni samningsins, þeim aðilum sem koma að byggingu og rekstri starfseminnar. Kafli 2 fjallar um verkið sjálft og önnur tengd verkefni. Þar er m.a. lýst markmiðum verkkaupa og tilgangi verksins. Ákvæði greinar 2.3.3 geyma upplýsingar um möguleg verk sem háð eru samþykki þriðja aðila. Teljast þær upplýsingar varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sem ekki er rétt að veita aðgang að. Sama á við um upplýsingar í grein 2.4.3. Í 3. kafla samningsins er fjallað um ráðstöfun lands undir einstakar byggingar, byggingarrétt, o.fl. Í kafla 4 eru ákvæði um forsendur fyrstu greiðslu verkkaupa til framkvæmdaraðila. Ákvæði 4.1.1.1 og 4.1.2.2 geyma upplýsingar sem telja verður að varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni [C] og fyrirtæki tengd félaginu og því ekki rétt að veita aðgang að þessum ákvæðum. Í 5. og 6. kafla er fjallað um hönnun, skipulag og framkvæmd verksins. Í 7. og 8. kafla er fjallað um eftirlit verkkaupa og úrræði hans. Í 9. kafla er fjallað um sérstaka ráðgjafa verkkaupa varðandi hljómburð. Hefur verkkaupi gert grein fyrir hlutverki hans á vefsíðu sinni og í fréttatilkynningum. Í 10. og 11. kafla er fjallað um almennar gæðakröfur til verksala og fyrirtækja tengd honum við framkvæmd verksins og rekstur fyrirhugaðrar starfsemi. Ákvæði 11.3 geymir upplýsingar um skipulag við fjármögnun listviðburða. Að mati nefndarinnar varða þessar upplýsingar ekki mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni aðila. Í 12. kafla er fjallað um viðhald og umsýslu eigna. 13. kafli geymir upplýsingar um fjármál. Ákvæði 13.3.2 og 13.3.3 ásamt kafla 13.4 geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni og skulu því undanþegnar aðgangi. Sama á við um upplýsingar í köflum 13.6 og 13.7. Í köflum 14 og 15 er fjallað um ábyrgðir og tryggingar. Þá er í 16. kafla fjallað um takmarkanir á sölu hlutabréfa og forkaupsrétt. Upplýsingar í kafla 16.1 varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni og skulu því undanþegnar aðgangi. Í 17. kafla er fjallað um rétt verkkaupa til þess að leysa til sín verkið og hlutabréf. Í 18. kafla er fjallað um vanefndir. Í köflum 19 til 30 er finna ákvæði sem varða m.a. heimildir til riftunar,  breytingar sem verða vegna breyttrar löggjafar, trúnað, samskipti við almenning og fjölmiðla og auglýsingar, úrlausn ágreiningsmála og vexti. Að mati nefndarinnar geyma þessi ákvæði samningsins ekki upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni verksala og fyrirtækja tengdum honum, sem rétt getur talist að takmarka aðgang almennings að.
Samkvæmt framansögðu er það mat úrskurðarnefndarinnar að veita beri kæranda aðgang að umræddum samningi að slepptum eftirtöldum ákvæðum hans: 2.3.3, 2.4.3, 4.1.1.1, 4.1.2.2, 13.3.2, 13.3.3, 13.4, 13.6, 13.7 og 16.1.


Úrskurðarorð:

Ríkiskaupum og Reykjavíkurborg er skylt að veita kærendum, [A] hf. og [B] hf., aðgang að samningi Austurhafnar-TR ehf. og [C], dags. 9. mars 2005, að undanskildum upplýsingum er fram koma í eftirtöldum köflum og ákvæðum samningsins: 2.3.3, 2.4.3, 4.1.1.1, 4.1.2.2, 13.3.2, 13.3.3, 13.4, 13.6, 13.7 og 16.1.

 

Friðgeir Björnsson
varaformaður

 

Skúli Magnússon                                                                        Helga Guðrún Johnson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum