Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2006 Forsætisráðuneytið

A-224/2006 Úrskurður frá 9. febrúar 2006

A-224/2006 Úrskurður frá 9. febrúar 2006


ÚRSKURÐUR

Hinn 9. febrúar 2006 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-224/2006:

Kæruefni

Með bréfi dags. 25. október s.l. kærði [...] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun sveitarfélagsins [A] frá 18. október s.l. um aðgang að tilteknum gögnum sem vörðuðu viðskipti sveitarfélagsins við [B] ehf. Úrskurðarnefndin sendi kæruna til umsagnar sveitarfélagsins með bréfi dags. 4. nóvember. Sveitarfélagið fól [X] hrl. að svara fyrir sína hönd og er svar hans dags. 25. nóvember. Bréfinu fylgdu í trúnaði þau gögn sem kæranda hafði verið synjað um aðgang að.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um umsögn sveitarfélagsins og bárust athugasemdir hans með bréfi dags. 29. nóvember. Með bréfi dags. 28. desember óskaði úrskurðarnefndin eftir tilteknum viðbótarupplýsingum frá sveitarfélaginu varðandi hluta af kærunni sem varðaði fundargerðir sérstaks starfshóps sveitarfélagsins og aðgang að þeim. Í svari lögmanns sveitarfélagsins dags. 10. janúar 2006 kemur fram að fallist sé á afhendingu fundargerðanna. Skýrði úrskurðarnefndin kæranda frá þessu með bréfi dags. 13. janúar.
Með bréfi dags. 29. desember s.l. leitaði úrskurðarnefndin álits [B] ehf. á því hvort afhenda mætti hin umdeildu gögn. Svar [Y] lögmannsstofu hf. f.h. [B] ehf. er dags. 11. janúar. Var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um svar þetta og barst afstaða hans með bréfi dags. 19. janúar.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik í stuttu máli þau að sveitarfélagið [A] gerði hinn 31. júlí 2001 samning við [B] ehf. um sölu á jörðinni [C] gegn því að tiltekin uppbygging ættu sér þar stað. Fjórum árum seinna eða haustið 2005 kom þessi samningur til umræðu í bæjarráði [A]. Meðal annars var rætt um hvort kaupandi hefði staðið að öllu leyti við ákvæði samningsins.
Kærandi fór fram á það með tölvupósti til [A] 10. október s.l. að hann fengi aðgang að og afrit af öllum skjölum og gögnum í vörslu sveitarfélagsins sem [B] ehf. hefðu sent því til að sýna fram á að staðið hefði verið við ákvæði umrædds kaupsamnings. Vísaði kærandi til upplýsingalaga nr. 50/1996.
[A] synjaði beiðni þessari með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 eins og fram kemur í tölvupósti frá fjármálastjóra sveitarfélagsins dags. 10. október.
Í kæru dags. 25. október 2005 segir kærandi að synjunin eigi ekki við nein rök að styðjast. Þær 50 milljónir króna sem eigendum [B] ehf. var skylt að verja til uppbyggingar staðarins væru hluti af kaupverði jarðarinnar. Að leyna gögnum um það hvernig þessum fjármunum var varið jafngildi því að gefa upp fjárhæð kaupverðs en ekki gjaldmiðil. Á fundi bæjarráðs [A] 28. september 2005 hafi verið lögð fram greinargerð og yfirlit yfir framkvæmdir [B] ehf. Á sama fundi hafi verið kynnt sú niðurstaða sérstaks starfshóps sveitarfélagsins að ekki hefði verið varið 50 milljónum króna til uppbyggingarinnar. Hér sé um hagsmuni almennings að tefla og ráðstöfun opinberra eigna. Almenningur eigi rétt á að kynna sér gögn í slíkum málum. Þá bendir kærandi á að frestur til að rifta samningnum renni út 1. nóvember 2005 og því varði það almannahagsmuni að upplýsingarnar komi fram sem fyrst. Fram kom hjá kæranda að hann krefðist ekki einungis aðgangs að greinargerð og framkvæmdaryfirliti [B] ehf. sem lögð voru fram í bæjarráði heldur einnig að fundargerðum starfshóps sem skipaður var 14. september s.l.
Í umsögn lögmanns sveitarfélagsins dags. 25. nóvember er enn vísað í 5. gr. upplýsingalaga og þar kemur fram að í umbeðnum gögnum sé að finna nánast allar upplýsingar um fjárhag og viðskiptahagsmuni fyrirtækisins og lögaðilans [B] ehf. Fyrirtækið hafi ekki samþykkt að gögn þessi yrðu afhent og raunar talið að opinber umfjöllun væri ekki eðlileg á meðan leitað væri samkomulags milli aðila. Í athugasemdum kæranda dags. 29. nóvember eru fyrri kröfur ítrekaðar og þess krafist að gögn verði afhent sem sýni eins nákvæmlega og hægt er hvernig fénu hafi verið varið.
Úrskurðarnefndin ákvað að leita álits [B] ehf. á afhendingu gagnanna og í umsögn lögmanns félagsins dags. 11. janúar s.l. kemur fram að um sé að ræða bókhaldsgögn og önnur gögn um rekstur félagsins sem eðli málsins samkvæmt séu mikilvæg og viðkvæm. Í undirbúningi séu ýmiss konar samningar og opinber umfjöllun um einkamálefni félagsins geti haft skaðleg áhrif á þá. Sé því með vísan til 5. gr. upplýsingalaga lagst gegn afhendingu.
Kæranda var loks gefinn kostur á að tjá sig um þessa afstöðu [B] ehf. Fram kemur að hann telji að hagsmunir almennings af því að fá réttar og nákvæmar upplýsingar um það hvernig greiðslu fyrir eign sem bæjarfélagið selur sé háttað vegi þyngra en sjónarmið þau sem færð séu fram af hálfu [B] ehf. Þá bendir kærandi á að þeir sem [B] ehf. komi til með að semja við hafi nú þegar séð þau gögn sem óskað hafi verið eftir.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Kærandi krefst aðgangs að greinargerð og framkvæmdaryfirliti [B] ehf. sem lögð voru fram í bæjarráði. Einnig krefst hann aðgangs að fundargerðum starfshóps sveitarfélagsins [A] sem skipaður var 14. september s.l. og hefur verið fallist á hann af hálfu sveitarfélagsins.
Af fyrri úrskurðaframkvæmd má ráða að almenningur á ríkari rétt til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinberra fjármuna og gæða heldur en upplýsingum um viðskipti milli einkaaðila, sbr. t.d. úrskurð í máli A-222/2005. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þau gögn sem kærandi óskar eftir aðgangi að og varða ráðstöfun á opinberri eign. Er það mat nefndarinnar að veita beri aðgang að greinargerð [B] ehf. dags. 1. september 2005 vegna framkvæmda við [C] og yfirliti [Z] um framkvæmdakostnað á tímabilinu 31. júlí 2001 til 1. september 2005 enda sé þar ekki að finna neinar þær upplýsingar sem eðlilegt sé og sanngjarnt að leynt fari í skilningi 5. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:

[A] ber að veita kæranda aðgang að greinargerð [B] ehf. dags. 1. september 2005 vegna framkvæmda við [C] og yfirliti [Z] um framkvæmdakostnað á tímabilinu 31. júlí 2001 til 1. september 2005.

Páll Hreinsson formaður

Friðgeir Björnsson Sigurveig Jónsdóttir


 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum