Hoppa yfir valmynd
14. september 2005 Forsætisráðuneytið

A-216/2005 Úrskurður frá 14. september 2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. september 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-216/2005:

Kæruefni

Með bréfi, dags. 7. júní s.l., kærði [X] lögmannsþjónusta f.h. [A] hf. synjun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 9. maí s.l. um aðgang að gögnum er vörðuðu leyfisveitingu til [B ehf.], þ.e. umsókn, dags. 29. nóvember 2004, sbr. samhljóða bréf dags. 3. desember 2004, og umsögn Lyfjastofnunar dags. 21. desember 2004.

Með bréfi, dags. 8. júní s.l., gaf úrskurðarnefnd um upplýsingamál heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu kost á að gera athugasemdir við kæruna. Athugasemdir ráðuneytisins bárust með bréfi, dags. 16. júní s.l. Bréfinu fylgdu hin umdeildu gögn í trúnaði.

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir ráðuneytisins og koma viðhorf hans fram í bréfi [X] lögmannsþjónustu, dags. 28. júní s.l.

Sökum þess að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið vísaði í 5. gr. upplýsingalaga því til stuðnings að ekki mætti afhenda gögnin, ákvað úrskurðarnefndin að leita álits [B] ehf. Var það gert með bréfi, dags. 25. júlí s.l. Var ítrekun send 25. ágúst s.l. Svör [B] ehf. bárust svo með béfi, dags. 2. september s.l.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 29. apríl s.l., fór [A] hf. fram á það við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að fá aðgang að gögnum í tengslum við leyfisveitingu til [B] ehf. sem fengið hefði leyfi skömmu áður til framleiðslu forskriftarlyfja, eins og það var orðað í bréfinu.  

Ráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 9. maí s.l. Bréfinu fylgdi hluti gagna málsins, þ.e. bréf ráðuneytisins, dags. 9. desember 2004, þar sem Lyfjastofnun er beðin um umsögn um beiðni [B] ehf., dags. 3. desember 2004, sbr. samhljóða bréf dags. 29. nóvember 2004, um undanþágu til framleiðslu forskriftarlyfja til 1. júlí 2005. Einnig fylgdi bréf heilbrigðisráðuneytisins, dags 23. desember 2004, þar sem [B] ehf. er veitt umbeðin undanþága frá 1. janúar 2005 til 1. júlí 2005 með því skilyrði að á undanþágutímanum verði komið til móts við kröfur Lyfjastofnunar. Ráðuneytið kveðst hins vegar á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga hvorki geta afhent umsókn [B] ehf. né umsögn Lyfjastofnunar.

[A] hf. skaut málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi [X] lögmannsþjónustu, dags. 7. júní s.l. Þar kemur fram að kærandi telji að honum sé mismunað með þeim hætti að keppinautum sé ekki gert að uppfylla sömu kröfur og hann hafi orðið að sæta. Hafi hann um langa hríð reynt að fá framleiðsluleyfi en ekki hlotið náð fyrir augum heilbrigðisyfirvalda.

Þá ítrekar kærandi að hann hafi óskað eftir öllum gögnum málsins, þ.m.t. gögnum ráðuneytisins sjálfs sem lögð voru til grundvallar við leyfisveitinguna.

Með bréfi, dags. 8. júní s.l., var heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu gefið færi á að gera athugasemdir við kæruna. Í bréfi ráðuneytisins, dags. 16. júní s.l., er vísað til lögskýringargagna með 5. gr. upplýsingalaga. Þá kveðst ráðuneytið hafa metið það svo að í umræddum bréfum væri að finna viðkvæmar upplýsingar er lytu að framleiðsluvörum og snertu þannig viðskiptahagsmuni fyrirtækisins. Þá kemur fram að viðkomandi tvö bréf séu einu gögn málsins sem kærandi hafi ekki fengið aðgang að. Þá tók ráðuneytið fram að það teldi þýðingarlaust að veita aðgang að hluta, sbr. 7. gr. upplýsingalaga, þar sem meginefni bréfanna félli undir 5. gr. laganna.

Lögmanni kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir ráðuneytisins. Fram kemur í bréfi hans, dags. 28. júní s.l., að draga verði í efa að viðkvæmar upplýsingar sé að finna svo víða í hinum umbeðnu gögnum að 7. gr. eigi ekki við. Er vísað til þess að úrskurðarnefndin hafi afar sjaldan fallist á að svo háttaði um gögn sem deilt væri um.     

Leitað var eftir afstöðu [B] ehf. og í bréfi félagsins, dags. 2. september s.l., er alfarið lagst gegn því að upplýsingarnar verði afhentar. Kærandi hafi um tíma unnið að því að veikja samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Ef hann komist yfir þessar upplýsingar muni það veikja stöðu fyrirtækisins enn frekar og valda því tjóni. Þarna sé til dæmis að finna viðskiptaleyndarmál varðandi fyrirhugaða framleiðslu fyrirtækisins.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra veitti í árslok 2004 [B] tímabundið og skilyrt leyfi til framleiðslu svokallaðra forskriftarlyfja. Í XIII. kafla lyfjalaga nr. 93/1994 er mælt fyrir um skilyrði slíks leyfis. Kemur þar fram að Lyfjastofnun leggja mat á hvort umsækjandi sé þannig búinn húsnæði, tækjum og starfsliði að það fullnægi kröfum um framleiðslu, geymslu og meðferð lyfja. Í reglugerð um framleiðslu lyfja nr. 893/2004 er einnig að finna ítarlegar reglur um leyfisveitingar og hvaða skilyrði lyfjaframleiðendur þurfa að uppfylla. Augljósir almannahagsmunir um vernd lífs og heilsu almennings búa að baki eftirlits- og umsagnarskyldu Lyfjastofnunar að þessu leyti.

Kærandi byggir á því meðal annars að fyllsta jafnræðis hafi ekki verið gætt þar sem hann hafi ekki fengið leyfi til lyfjaframleiðslu á meðan [B] hafi fengið slíkt leyfi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur byggt synjun um aðgang að umbeðnum gögnum á 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki, er í hlut á. Fyrir liggur að lyfjaframleiðandinn sem í hlut á er ekki samþykkur því að upplýsingarnar verði afhentar og hefur fært fyrir því nokkur rök. Í lögskýringargögnum við upplýsingalögin segir m.a. svo um 5. gr.: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni."

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þeirra gagna sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að. Í umsókn [B] ehf., dags. 29. nóvember 2004, sbr. samhljóða bréf dags. 3. desember 2004, er að finna ýmsar upplýsingar um áform þess í framtíðinni sem eðlilegt er og sanngjarnt að leynt fari. Hins vegar sér nefndin ekkert því til fyrirstöðu, sbr. 7. gr. upplýsingalaga, að veita aðgang að inngangi bréfsins, 1. kafla og 4. kafla bréfsins, þó þannig að næstsíðasta setningin falli út. Í umsögn Lyfjastofnunar, dags. 21. desember, er annars vegar að finna nákvæma úttekt á leyfisumsækjanda og fyrri samskiptum stofnunarinnar við hann. Hins vegar er þar að finna í lokin nokkurs konar samantekt á niðurstöðu Lyfjastofnunar. Telur nefndin að eðlilegt sé og sanngjarnt að fyrri hluti umsagnarinnar sé ekki afhentur enda hafi hann að geyma viðkvæmar upplýsingar um rekstur og áform leyfisumsækjanda. Hins vegar gegnir öðru máli um næstsíðustu málsgrein á fyrstu síðu og síðustu fimm málsgreinar  á síðustu síðu umsagnarinnar. Þar kemur fram í hnotskurn afstaða Lyfjastofnunar og þar vega þyngra hagsmunir almennings af vitneskju um störf stjórnvalda.

Úrskurðarorð:

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu ber að veita aðgang að annars vegar inngangi, 1. og 4. kafla umsóknar [B] ehf. dags. 29. nóvember 2004 að undanskilinni næstsíðustu setningu bréfsins og hins vegar næstsíðustu málsgrein á fyrstu síðu og síðustu fimm málsgreinunum á lokasíðu í umsögn Lyfjastofnunar, dags. 21. desember 2004.

Páll Hreinsson formaður
Friðgeir Björnsson
Sigurveig Jónsdóttir


 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum