Hoppa yfir valmynd
7. september 2005 Forsætisráðuneytið

A-215/2005 Úrskurður frá 7. september 2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 7. september 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-215/2005:

Kæruefni

 Með þremur bréfum, dagsettum 17. maí og 24. maí s.l., kærði [X] lögmannsstofa hf., f.h. [A], synjun framkvæmdanefndar um einkavæðingu á beiðni kæranda um a) afrit af niðurstöðum úr áreiðanleikakönnun sem fjárfestingabankinn [Y] gerði á þá ónafngreindum erlendum banka sem [B] tilgreindi sem einn af fjárfestingaraðilum vegna kaupanna á Búnaðarbanka Íslands hf. síðla árs 2002, b) skýrslur fjárfestingabankans [Y] vegna sölu á Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., c) gögn sem Ríkisendurskoðun voru fengin í því skyni að vinna skýrslu um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003, d) öll gögn sem [Z] voru fengin til að vinna úr, þ.m.t. vinnureglur sem þeim voru settar vegna einkavæðingar Landssíma Íslands hf. og e) fundargerðir framkvæmdanefndar um einkavæðingu varðandi sölu á hlutabréfum ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf.. 

Í þessum úrskurði verða liðir a), b), c) og d) teknir til úrskurðar. Sérstakur úrskurður verður kveðinn upp um kæruefni samkvæmt e)-lið. 

Með bréfum dagsettum 26. maí s.l., var kæran kynnt framkvæmdanefnd um einkavæðingu og henni gefinn frestur til að koma á framfæri athugasemdum. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrðu látin í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. 

Í bréfum dags. 9. júní s.l. kom fram afstaða framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Um a)-lið kærunnar segir framkvæmdanefndin að sér hafi ekki borist formlegt erindi frá fjárfestingabankanum [Y] um niðurstöður slíkrar áreiðanleikakönnunar og því sé ekki hægt að verða við kröfu kæranda.  Hins vegar hafi kæranda verið send ódagsett tilkynning frá téðum banka, [Q], þar sem tilgreindar eru upplýsingar um bankann og ástæður hans fyrir fjárfestingu í Búnaðarbanka Íslands hf. Varðandi b)-lið kærunnar hafi framkvæmdanefndin ákveðið að afhenda kæranda þá kafla í skýrslum [Y] vegna sölu bankanna sem ekki féllu að hennar mati undir 5. gr. upplýsingalaga. Aðrir kaflar voru sendir úrskurðarnefnd í trúnaði til skoðunar. Hvað c)-lið varðar taldi framkvæmdanefndin ekki unnt að verða við kröfunni þar sem hún væri of almenns eðlis og óljós. Varðandi d)-lið kærunnar þá kvaðst framkvæmdanefndin hafa afhent kæranda viðkomandi gögn. 

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um svör framkvæmdanefndar um einkavæðingu og var sérstaklaga farið fram á að upplýst yrði hvort kærandi yndi afgreiðslu framkvæmdanefndar um einkavæðingu þar sem aðgangur hefði verið veittur að hluta, sbr. 7. gr. upplýsingalaga.

 Viðhorf kæranda koma fram í bréfi [X] lögmannsstofu dags. 19. júlí s.l. Þar eru fyrri kröfur ítrekaðar og því lýst yfir að kærandi fallist ekki á afgreiðslu framkvæmdanefndar að því er varðar aðgang að hluta.

Málsatvik 

Atvik málsins eru í stuttu máli eftirfarandi: 

a) Með tölvupósti dags. 3. maí s.l. óskaði kærandi eftir því við forsætisráðuneytið að fá afrit af niðurstöðum úr áreiðanleikakönnun sem fjárfestingabankinn [Y] hefði gert á ónafngreindum erlendum banka sem [B] hefði tilgreint sem einn af fjárfestingaraðilum vegna kaupanna á Búnaðarbankanum síðla árs 2002. Erindið var framsent framkvæmdanefnd um einkavæðingu og í svari hennar dags. 10. maí s.l. var beiðninni hafnað með vísan til 3. tölul. 4. gr. og 5. gr. upplýsingalaga. Kærandi skaut þessari afgreiðslu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi dags. 17. maí s.l. Þar var byggt á því að skilyrði upplýsingalaga til að undanþiggja gögnin aðgangi væru ekki uppfyllt.

 b-c) Með tölvupósti dags. 28. apríl s.l. fór kærandi fram á það við forsætisráðuneytið að fá skýrslur fjárfestingabankans [Y] sem unnar hefðu verið fyrir framkvæmdanefnd um einkavæðingu vegna sölu Landsbankans annars vegar og Búnaðarbankans hins vegar. Einnig var óskað eftir öllum þeim gögnum sem Ríkisendurskoðun voru fengin í því skyni að vinna skýrslu um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003. Þá  var óskað eftir uppkasti að þeirri skýrslu. Erindið var framsent framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Í svari nefndarinnar dags. 5. maí s.l. var beiðninni hafnað með vísan til 3. tölul. 4. gr. og 5. gr. upplýsingalaga. 

 Kærandi kærði þessa afgreiðslu með bréfi dags. 17. maí s.l. Þar er ekki lengur gerð krafa um uppkast að skýrslu Ríkisendurskoðunar. Kærandi vísaði til þess að skýrsla [Y] væri vinnuskjal þar sem hún væri unnin af utanaðkomandi aðila fyrir stjórnvaldið. Þá væru skilyrði 5. gr. ekki uppfyllt varðandi skýrsluna. Varðandi gögn sem afhent voru Ríkisendurskoðun þá væri um að ræða upplýsingar sem væru ekki lengur til eigin nota fyrir stjórnvald og því ætti 3. tl. 4. gr. upplýsingalaga ekki við.

 Ennfremur vísaði kærandi til þess að langt væri um liðið og því yrði enginn fyrir tjóni þótt þessi gögn yrðu gerð opinber.

 d) Hinn 19. apríl s.l. fór kærandi fram á það við forsætisráðuneytið í tölvuskeyti að fá afhenta skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins [Z] sem unnin var fyrir framkvæmdanefnd um einkavæðingu vegna sölu Símans. Beiðnin var framsend framkvæmdanefnd um einkavæðingu og svaraði hún kæranda með bréfi dags. 28. apríl s.l. þar sem kemur fram að tillaga [Z] um fyrirkomulag sölu á hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. verði birt á heimasíðu framkvæmdanefndar daginn eftir.

 Kærandi ítrekaði þá við framkvæmdanefndina kröfu sína um aðgang að öllum gögnum sem [Z] voru fengin til að vinna úr, þar með taldar vinnureglur sem þeim voru settar. Svar barst við þeirri beiðni með bréfi dags. 13. maí og var henni hafnað sbr. 3. tl. 4. gr. og 5. gr. upplýsingalaga.

 Kærandi kærði þessa afgreiðslu til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 24. maí s.l. Þar er einkum vísað til þess að vinnureglurnar feli í sér endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls, sbr. 3. tl. 4. gr. upplýsingalaga, og því hljóti að verða veittur aðgangur að þeim.

 *** 

Með bréfum dagsettum 26. maí s.l., voru erindi kæranda kynnt framkvæmdanefnd um einkavæðingu og henni gefinn frestur til að koma á framfæri athugasemdum. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrðu látin í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. 

Í bréfum dags. 9. júní s.l. kom fram afstaða framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Kom þar fram varðandi a)-lið kærunnar eins og hún var afmörkuð hér að ofan að framkvæmdanefndinni hefði ekki borist formlegt erindi frá fjárfestingabankanum [Y] um niðurstöður slíkrar áreiðanleikakönnunar og því væri ekki hægt að verða við kröfu kæranda.  Hins vegar var kæranda send ódagsett tilkynning frá téðum banka [Q] þar sem tilgreindar eru upplýsingar um bankann og ástæður hans fyrir fjárfestingu í Búnaðarbanka Íslands hf. Varðandi b)-lið kærunnar hefði framkvæmdanefnd ákveðið að afhenda kæranda þá kafla í skýrslum [Y] vegna sölu bankanna sem ekki féllu að hennar mati undir 5. gr. upplýsingalaga. Aðrir kaflar voru sendir úrskurðarnefnd í trúnaði til skoðunar. Hvað c)-lið varðar taldi framkvæmdanefndin ekki unnt að verða við kröfunni þar sem hún væri of almenns eðlis og óljós. Varðandi d)-lið kærunnar segist framkvæmdanefndin hafa afhent kæranda viðkomandi gögn.

 Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um svör framkvæmdanefndar um einkavæðingu og var sérstaklaga farið fram á að upplýst yrði hvort kærandi yndi afgreiðslu framkvæmdanefndar um einkavæðingu þar sem aðgangur hefði verið veittur að hluta, sbr. 7. gr. upplýsingalaga.

 Viðhorf kæranda koma fram í bréfi [X] lögmannsstofu dags. 19. júlí s.l. Þar eru fyrri kröfur ítrekaðar og því lýst yfir að kærandi fallist ekki á afgreiðslu framkvæmdanefndar að því er varðar aðgang að hluta. Fram kemur sérstaklega varðandi aðgang að gögnum sem Ríkisendurskoðun voru fengin að ómöguleiki standi til þess að kærandi geti tilgreint þau nánar.

 Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða 

a) Í bréfi framkvæmdanefndar um einkavæðingu dags. 9. júní síðastliðinn kom fram að henni hefði ekki borist formlegt erindi frá fjárfestingabankanum [Y] um niðurstöður áreiðanleikakönnunar á þá ónafngreindum banka sem [B] tilgreindi sem einn af fjárfestingaraðilum vegna kaupanna á Búnaðarbanka Íslands síðla árs 2002. Lögmaður kæranda vefengdi ekki þessa afstöðu nefndarinnar í bréfi dags. 19. júlí síðastliðinn. Þá telur úrskurðarnefndin ekki ástæðu til að draga í efa að gögn þau sem kærandi óskaði eftir undir þessum lið séu ekki til. Af þessum sökum verður kröfunni vísað frá.

 b) Framkvæmdanefnd byggði synjun um afhendingu á skýrslum fjárfestingabankans [Y] vegna sölu á Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. á 5. gr. upplýsingalaga. Af því tilefni lagði úrskurðarnefnd fyrir framkvæmdanefnd um einkavæðingu að kanna afstöðu þeirra fyrirtækja sem í hlut ættu. Í bréfi framkvæmdanefndar um einkavæðingu dags. 31. ágúst s.l. kemur fram að annars vegar hafi verið leitað álits hjá [C] ehf., [D] hf., [E] hf., [F] og [G] vegna skýrslu [Y] um Landsbankann, og hins vegar hjá öllum ofangreindum utan [C] ehf., vegna skýrslu [Y] um bjóðendur í Búnaðarbankann. Ekki var talin ástæða til að senda [H] hf. erindi, þar sem félagið sameinaðist [I] hf. og er ekki lengur skráð félag. Svör bárust frá [C] ehf. og [D] hf. innan tilskilins frests og leggjast þessi félög ekki gegn afhendingu.

 Með vísan til þess að þau félög sem í hlut eiga leggjast ekki gegn afhendingu skýrslu [Y] eða hafa ekki svarað innan tilskilins tíma fellst úrskurðarnefnd á kröfu kæranda um afhendingu, enda verður ekki séð að ákvæði 5. gr. standi í vegi fyrir afhendingu þessarar skýrslu.

 c) Við mat á kröfu kæranda um aðgang að gögnum þeim sem Ríkisendurskoðun voru fengin í því skyni að vinna skýrslu um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003 reynir á skýringu 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Ákvæðið hljóðar svo: „Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.“ Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. svo: „Beiðni um aðgang að gögnum er annaðhvort hægt að binda við tiltekin skjöl eða önnur gögn, sem aðili óskar eftir að fá að kynna sér, eða gögn tiltekins máls. Þegar óskað er eftir að fá aðgang að gögnum tiltekins máls á hlutaðeigandi rétt á að fá aðgang að öllum þeim gögnum sem talin eru upp í 2. mgr. 3. gr., enda standi ákvæði 4.-6. gr. því ekki í vegi.

Í beiðni verður að tilgreina gögnin eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á gögnunum eða málinu. Það leiðir af 1. mgr. að ekki er hægt að biðja um gögn í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Í frumvarpinu er gengið út frá sömu tilhögun og fram kemur í norsku og dönsku upplýsingalögunum um þetta efni, þ.e. að tilgreina verður þau gögn eða það mál sem beiðni beinist að.“

 Í beiðni sinni gerði kærandi hvorki kröfu um aðgang að tilteknu máli né að gögnum tiltekins máls sem Ríkisendurskoðun voru afhent vegna einkavæðingar tiltekins fyrirtækis, heldur óskaði hann eftir gögnum í öllum málum af ákveðinni tegund frá tilteknu tímabili.  Beiðnin uppfyllir því ekki þær kröfur sem leiða af 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga um tilgreiningu máls eða gagna þess, sbr. einnig rökstuðning í máli A-213/2005. Frávísun framkvæmdanefndar um einkavæðingu á þessu erindi er því staðfest.

 Á grundvelli 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvöldum að veita aðila nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar, eftir því sem við verður komið, reynist beiðni ónákvæm. Kærandi getur því snúið sér á ný til framkvæmdanefndar um einkavæðingu og leitað eftir leiðbeiningum og aðstoð við að afmarka erindi sitt nánar þannig að hægt verði að taka efnislega afstöðu til erindis hans.

 d) Í bréfi framkvæmdanefndar um einkavæðingu dags. 9. júní s.l. kemur fram að tiltekin gögn sem lúta að einkavæðingu Landssíma Íslands hf. hafi verið afhent kæranda. Lögmaður kæranda hefur ekki borið þetta til baka í bréfi til úrskurðarnefndar, dags. 19. júlí s.l., og verður því að líta svo á að orðið hafi verið við erindi kæranda að því er þennan lið varðar. Ber því að vísa kærunni frá að þessu leyti.  

Úrskurðarorð:

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu ber að afhenda kæranda afrit af skýrslu [Y] vegna sölu á Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. í heild.

Frávísun framkvæmdanefndar um einkavæðingu á erindi um aðgang að gögnum, sem Ríkisendurskoðun voru fengin í því skyni að vinna skýrslu um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998-2003, er staðfest.

Öðrum kröfum kæranda, sem hér eru teknar til úrskurðar, er vísað frá.  

Páll Hreinsson formaður
Friðgeir Björnsson
Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum