Hoppa yfir valmynd
10. júní 2005 Forsætisráðuneytið

A-206/2005B Úrskurður frá 10. júní 2005

Úrskurður í málinu nr. A-206/2005B

ÚRSKURÐUR

Hinn 10. júní 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-206/2005B:

Kæruefni

Með bréfi dags. 3. júní s.l. krafðist Vegagerðin þess með vísan til 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að réttaráhrifum úrskurðar í málinu A-206/2005, sem kveðinn var upp 25. maí s.l. yrði frestað. Málið snerist um aðgang að upplýsingum úr tilboðum sem gerð voru í rekstur Vestmannaeyjaferju árið 2000. Segir í bréfi Vegagerðarinnar að þótt fallast megi á röksemdir í ofangreindum úrskurði um að veita beri aðgang að upplýsingum sem skylt sé að birta samkvæmt lögum nr. 94/2001 um opinber innkaup verði engan veginn fallist á niðurstöðu úrskurðarins. Ekki hafi verið skylt samkvæmt lögum um opinber innkaup að birta þær upplýsingar sem hér um ræðir því þær hafi ekki verið nauðsynlegar til að velja á milli tilboða í útboðinu. Samtala tilboðsliða hafi verið birt við opnun tilboða eins og venja væri og hafi samanburður og val á tilboði byggst á því.

Þá segir í bréfi Vegagerðarinnar að þar sem niðurstaða úrskurðarnefndar hafi verði byggð á misskilningi á málsatvikum sé nauðsynlegt að dómstólar fái tækifæri til að fjalla um málið. Fyrir liggi andstaða bjóðanda í verkið, [A] hf., við að umræddar upplýsingar verði veittar enda myndi slíkt fyrirsjáanlega skaða viðskiptahagsmuni og samkeppnisstöðu þeirra í yfirvofandi útboði á rekstri Vestmannaeyjaferju. Auk þess geti niðurstaðan raskað opinberum hagsmunum af framkvæmd útboða. Nauðsynlegt sé að gefa fyrirtækinu færi á að verja hagsmuni sína en ekki liggi fyrir að úrskurðurinn hafi verið birtur því.

Fram kemur í bréfi Vegagerðarinnar að úrskurðurinn hafi verið móttekinn hjá stofnuninni hinn 30. maí s.l. Ekki hafi verið unnt að koma strax við nauðsynlegri umfjöllun um hann. Túlka verði hinn skamma frest laganna til að krefjast frestunar réttaráhrifa stjórnvaldi og öðrum hagsmunaaðilum í hag. Forðast verði að svipta aðila rétti til að bera mál undir dómstóla nema brýna nauðsyn beri til. Ljóst sé að engir hagsmunir verði fyrir borð bornir þótt fallist yrði á frestun, enda liggi ekki fyrir af hvaða tilefni kærandi í máli A-206/2005 hafi óskað eftir upplýsingunum.

Þá segir Vegagerðin að verði fallist á frestun réttaráhrifa hyggist stofnunin vísa málinu til dómstóla eins fljótt og kostur er í kjölfar ákvörðunar nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Niðurstaða

Úrskurður í máli A-206/2005 var kveðinn upp 25. maí s.l. eins og fyrr segir. Sama dag var hann sendur með bréfi til Vegagerðarinnar og kæranda í því máli og kom fram í bréfinu að þar með væri úrskurðurinn birtur gagnvart þessum aðilum. Jafnframt var úrskurðurinn sendur [A] hf. þennan sama dag til upplýsingar.

Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti að kröfu stjórnvalds ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Krafa þess efnis skuli gerð ekki síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. Í athugasemdum við 18. gr. frumvarps þess, er varð að upplýsingalögum nr. 50/1996, segir: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á. [...]Skal krafa stjórnvalds gerð ekki síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar, en um útreikning þessa frests fer eftir 8. gr. stjórnsýslulaga.“

Fyrir liggur að Vegagerðin fékk úrskurðinn í hendur 30. maí s.l. Það var svo ekki fyrr en 3. júní s.l. sem stofnunin sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál kröfu um frestun réttaráhrifa. Var sú krafa send bréfleiðis en einnig með tölvupósti til ritara nefndarinnar. Þá voru liðnir þeir þrír dagar sem stjórnvald hefur til að krefjast frestunar réttaráhrifa samkvæmt 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga. Þótt fallast megi á með kæranda að um stuttan frest sé að ræða er ákvæðið afdráttarlaust. Þegar af þeirri ástæðu er ekki hægt að taka kröfu Vegagerðarinnar til greina.

1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga veitir einungis stjórnvaldi rétt til að krefjast frestunar réttaráhrifa. Þegar af þeirri ástæðu koma ekki til álita hagsmunir þriðja aðila, í þessu tilfelli [A] hf., af frestun réttaráhrifa.

Úrskurðarorð:
Kröfu Vegagerðarinnar um frestun réttaráhrifa úrskurðar í máli A-206/2005 er hafnað.


Páll Hreinsson formaður
Friðgeir Björnsson
Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum