Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2005 Forsætisráðuneytið

A-199/2005 Úrskurður frá 25. febrúar 2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 25. febrúar 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-199/2005:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 13. janúar sl., kærði [..] synjun Bændasamtaka Íslands, dagsetta 7. s.m., um að veita honum aðgang að lista yfir greiðslumark í fjárbúskap. Jafnframt fór kærandi fram á að fá aðgang að lista yfir mjólkurkvóta allra framleiðenda á landinu.

Með bréfi, dagsettu 4. febrúar sl., var kæran kynnt Bændasamtökum Íslands og þeim veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 16. febrúar sl. Umsögn Bændasamtakanna, dagsett 15. febrúar sl., barst innan tilskilins frests.

Formaður og varaformaður úrskurðarnefndar viku sæti við meðferð og úrskurð í máli þessu. Sæti þeirra tóku varamennirnir Skúli Magnússon og Símon Sigvaldason og var Skúli jafnframt settur til að stýra meðferð málsins og uppkvaðningu úrskurðar í því með bréfi forsætisráðuneytisins, dagsettu 28. janúar sl. Þá tók Helga Guðrún Johnson varamaður sæti Sigurveigar Jónsdóttur í fjarveru hennar.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærandi fór hinn 9. desember sl. fram á að fá upplýsingar um greiðslumark í fjárbúskap frá landbúnaðarráðuneytinu. Landbúnaðarráðuneytið greindi kæranda frá því í tölvupósti hinn 22. s.m. að erindi hans hefði verið framsent Bændasamtökum Íslands til afgreiðslu í samræmi við upplýsingalög og „að höfðu samráði við Persónuvernd".

Bændasamtökin afgreiddu beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 7. janúar sl., þar sem fram kom að henni væri synjað á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru til nefndarinnar er bent á að upplýsingar um aflamark í sjávarútvegi séu öllum aðgengilegar. Telur kærandi að sömu reglur eigi að gilda um greiðslumark í fjárbúskap.

Í umsögn Bændasamtakanna til úrskurðarnefndar kemur fram að í beiðni kæranda felist ósk um að fá upplýsingar um greiðslumark nærri 2000 lögbýla í landinu. Þar kemur jafnframt fram að beiðnin varði ekki gögn sem afmarkist við ákveðið skjal.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. 1. gr. laga nr. 124/1995, er greiðslumark lögbýlis tiltekinn fjöldi ærgilda sem ákveðinn er fyrir hvert lögbýli og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði. Samkvæmt 38. gr. laga nr. 99/1993, sbr. 7. gr. laga nr. 88/2000, skulu Bændasamtök Íslands halda skrá yfir rétthafa greiðslumarks lögbýla og handhafa beingreiðslna samkvæmt því, en ýmis réttaráhrif eru tengd færslu í skrána, meðal annars þau að vera grundvöllur beingreiðslna úr ríkissjóði til handhafa greiðslumarks hverju sinni.

Samkvæmt framangreindu er stofnað til og kveðið á um efni umræddrar skrár með settum lögum auk þess sem ákvarðanir um einstakar færslur í skrána geta haft verulega þýðingu fyrir fjárhagslega hagsmuni þeirra sem í hlut eiga. Teljast ákvarðanir Bændasamtakanna um færslur í skrána þannig ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. upplýsingalaga. Fellur málið undir gildissvið upplýsingalaga að þessu leyti.

Með 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er almenningi tryggður aðgangur að gögnum sem varða tiltekið mál sem er eða hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum, sbr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Af áskilnaði um að beiðni um aðgang varði tiltekið mál verður meðal annars dregin sú ályktun að lögin feli ekki í sér rétt til að óska eftir aðgangi að gögnum í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Af sama áskilnaði leiðir að lögin veita heldur ekki rétt til að krefjast aðgangs að gögnum sem verða til við kerfisbundna skráningu og vinnslu upplýsinga um þau mál sem til meðferðar eru hjá stjórnvöldum. Ef þær eru persónugreinanlegar, fer um aðgang að slíkum upplýsingum samkvæmt nánari fyrirmælum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eins og einnig verður ráðið af 2. málslið 2. mgr. 2. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 83/2000, og 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga.

Þær upplýsingar sem kærandi hefur krafist að fá afhentar leiða af kerfisbundinni skráningu á greiðslumarki allra rétthafa slíkra réttinda í landinu. Umbeðin skrá og vinnsla þeirra upplýsinga sem henni liggur til grundvallar er ekki tiltekið mál í framangreindum skilningi. Af því leiðir að upplýsingalögin gilda ekki um aðgang að henni. Kröfu kæranda ber því að vísa frá nefndinni án frekari umfjöllunar.

Eins og áður greinir krefst kærandi þess einnig að hann fái aðgang að lista yfir mjólkurkvóta allra framleiðenda í landinu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi óskað eftir umræddum lista fyrr en í kæru sinni til nefndarinnar. Liggur þannig ekki fyrir synjun Bændasamtaka Íslands um aðgang að umræddum lista sem heimilt er að bera undir nefndina samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga. Er nefndin því ekki bær til að fjalla efnislega um þessa kröfu kæranda og verður henni vísað frá nefndinni þegar af þessari ástæðu.

 

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, […], á hendur Bændasamtökum Íslands um að fá aðgang að listum yfir greiðslumark í fjárbúskap og mjólkurkvóta allra framleiðenda í landinu er vísað frá nefndinni.

 

Skúli Magnússon, formaður

Helga Guðrún Johnson

Símon Sigvaldason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum