Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2005 Forsætisráðuneytið

A-196/2005 Úrskurður frá 26. janúar 2005

ÚRSKURÐUR

Hinn 26. janúar 2005 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-196/2005:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 12. október sl., kærði […]n hrl. f.h. […] synjun yfirdýralæknis, dagsetta 4. s.m., um að veita umbjóðendum hans aðgang að öllum gögnum, skjölum, erindum, bréfum, skýrslum og úttektum, er fyrir lægju hjá embættinu vegna umsagna þess til landbúnaðarráðuneytisins um löggildingu sláturhúsanna í [sveitarfélögunum A, B, C, D, E, F, G, H og I], sbr. reglugerð nr. 461/2003

Í bréfinu fóru kærendur einnig fram á aðgang að skýrslum vegna eftirlits með þessum sláturhúsum á grundvelli 5. gr. sömu reglugerðar á yfirstandandi ári. Með bréfi, dagsettu 22. nóvember sl., tilkynnti umboðsmaður kærenda að kæran tæki eingöngu til eftirlitsskýrslna vegna sláturhúsanna í [A, B og C]. Úrskurðarnefndin ákvað að kljúfa þessa beiðni í þrjú mál, þar sem fjallað væri sjálfstætt um aðgang að eftirlitsskýrslum um sérhvert þessara sláturhúsa. Í úrskurði þessum er fjallað um aðgang að eftirlitsskýrslum varðandi sláturhúsið að [A].

Með bréfi, dagsettu 15. nóvember sl., var upphaflega kæran kynnt yfirdýralækni og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 26. nóvember sl. Jafnframt var þess óskað að í umsögn hans kæmi fram hvert væri umfang þeirra gagna sem kærendur höfðu leitað eftir. Með bréfi, dagsettu 29. nóvember sl., var yfirdýralækni kynnt síðari kæran frá 22. s.m. og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir til kl. 16.00 hinn 13. desember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu í trúnaði látin í té afrit af umbeðnum gögnum varðandi sláturhúsið á [A].

Umsögn yfirdýralæknis um upphaflegu kæruna, dagsett 24. nóvember sl., barst hinn 29. s.m. Umsögn hans um síðari útgáfu hennar, dagsett 13. desember sl., barst innan tilskilins frests. Henni fylgdu ýmis gögn er varða endurnýjun sláturleyfis fyrir sláturhúsið á [A], en ekki um löggildingu þess.

Með bréfi til yfirdýralæknis, dagsettu 29. desember sl., var þess farið á leit að nefndinni yrði látið í té afrit af eftirlitsskýrslu héraðsdýralæknis skv. 5. gr. reglugerðar nr. 461/2003, um slátrun og meðferð sláturhúsa, vegna eftirlits með sláturhúsinu á [A] fyrir árið 2004. Með bréfi frá yfirdýralækni, dagsettu 6. janúar sl., bárust umbeðin gögn.

Af erindi héraðsdýralæknisins til [J, eiganda sláturhússins], dagsettu 6. ágúst 2004, mátti ráða að áform væru um slátra ekki framar í sláturhúsinu á [A] að lokinni sláturtíð þá um haustið. Með bréfi til [J], dagsettu 12. janúar sl., leitaði úrskurðarnefnd eftir upplýsingum um hvort þessi áform hefðu gengið eftir. Jafnframt var þess óskað, að úrskurðarnefnd yrði gerð grein fyrir því, hvort félagið teldi eitthvað vera því til fyrirstöðu að veita kærendum aðgang að umbeðnum gögnum og af hverju það væri, ef það teldi svo vera. Svar [J], dagsett 20. janúar sl., barst í símbréfi sama dag.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að umboðsmaður kærenda fór með bréfi til yfirdýralæknis, dagsettu 27. september sl., fram á að fá aðgang að öllum gögnum, skjölum, erindum, bréfum, skýrslum og úttektum, er fyrir lægju hjá embættinu vegna umsagna þess til landbúnaðarráðuneytisins um löggildingu sláturhúsanna í [A, B, C, D, E, F, G, H og I], sbr. reglugerð nr. 461/2003, og skýrslur vegna eftirlits með þeim á grundvelli 5. gr. sömu reglugerðar á yfirstandandi ári.

Með bréfi til umboðsmanns kærenda, dagsettu 4. október sl., synjaði yfirdýralæknir beiðni kærenda með vísan til þess að umbeðin gögn vörðuðu mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni viðkomandi sláturhúsa. Því væri óheimilt að veita að þeim aðgang á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru til nefndarinnar kemur fram að umsókn kærenda um löggildingu fyrir sláturhús þeirra hafi verið hafnað. Telja þeir að sér hafi verið mismunað m.t.t. annarra sláturhúsaeigenda. Þá draga kærendur í efa að umbeðin gögn hafi að geyma upplýsingar er varði hagsmuni sem varðir séu af 5. gr. upplýsingalaga. Jafnvel þótt svo væri, er ennfremur talið að mikilvægir almannahagsmunir m.t.t. fæðuöryggis og heilnæmra lífsskilyrða ættu að vega þyngra og víkja þeim til hliðar.

Í símbréfi [J] til úrskurðarnefndar er staðfest að sláturhús félagsins á [A] hafi verið úrelt og að ekki verði slátrað þar oftar. Á hinn bóginn leggur félagið ríka áherslu á að eftirlitsheimildum hins opinbera þurfi að fylgja rík trúnaðarskylda. Upplýsinga sem aflað sé í þágu opinbers eftirlits beri því að fara með sem trúnaðarmál og eingöngu nýta í því skyni. Í samræmi við það lýsir félagið sig algerlega mótfallið því að upplýsingum sem embætti yfirdýralæknis hafi aflað í eftirlitsskyni verði miðlað til annarra, þ. á m. keppinauta þess.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 461/2003, um slátrun og meðferð sláturafurða, er það í höndum landbúnaðarráðuneytisins að taka ákvörðun um löggildingu sláturhúsa, en ekki yfirdýralæknis. Þegar beiðni um aðgang að gögnum varðar mál, sem tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun í, sbr. 1. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ber skv. 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga að beina henni til þess stjórnvalds, sem ákvörðunina hefur tekið. Að þessu athuguðu lá ekki fyrir synjun þar til bærs stjórnvalds um aðgang að gögnum um löggildingu tiltekinna sláturhúsa þegar kæra málsins var borin fram við úrskurðarnefndina. Ákvörðun yfirdýralæknis þar að lútandi verður því ekki borin undir nefndina, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og ber því að vísa henni frá nefndinni.

Ábendingu um þessa niðurstöðu var komið á framfæri við kærendur um leið og hún lá fyrir, sbr. erindi formanns nefndarinnar til kærenda, dagsett 29. desember sl., með afriti til landbúnaðarráðuneytisins og yfirdýralæknis.

2.

Kærendur hafa óskað eftir aðgangi að skoðunarskýrslum yfirdýralæknis vegna sláturhúss að [A] nr. 24. Fyrir liggur að skoðun fór fram hinn 6. ágúst 2004 og voru skýrslur gerðar af því tilefni um sláturhús, kjötfrystihús og kjötverkunarstöð. Til úrlausnar er hvort kærendur eigi rétt á aðgangi að þessum skýrslum.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. laganna. Samkvæmt síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskipta-hagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki, er í hlut á. Í lögskýringargögnum við upplýsingalögin segir m.a. svo um þetta ákvæði:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni."

Samkvæmt 2. og 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 461/2003, um slátrun og meðferð sláturafurða, skulu héraðsdýralæknar árlega skoða ítarlega húsnæði og búnað sláturhúsa, kjötpökkunarstöðva, kjötfrystihúsa, kjötvinnslustöðva og dreifistöðva, meðferð á afurðunum, innra eftirlit og annað sem yfirdýralæknir gefur fyrirmæli um og skila ítarlegri skýrslu um skoðun sína til eiganda fyrirtækisins og yfirdýralæknis. Af 4. mgr. sömu greinar má ráða að eftirlit þetta fer fram til að ganga úr skugga um að starfsemin á viðkomandi stað uppfylli enn skilyrði löggildingar.

Jafnvel þótt upplýsingar, sem aflað er um ástand slíkra húsa í þessu skyni, geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra, er hlut eiga að máli, gera upplýsingalögin ráð fyrir að það sé metið í hverju og einu tilviki. Í athugasemdum við II. kafla frumvarps þess er varð að upplýsingalögum segir svo:

„Aðgangur almennings að upplýsingum verður almennt ekki takmarkaður á grundvelli ákvæða 5.-6. gr. nema að undangengnu mati stjórnvalds á því hvort hætta sé á að þeir hagsmunir, sem þar eru tilgreindir, skaðist ef upplýsingar eru veittar."

Þegar til þess er litið að ekki verður framar slátrað í því húsi, sem hér er um að ræða, verða upplýsingar um ástand þess vart taldar til þess fallnar að skaða þá hagsmuni, sem verndaðir eru af síðari málslið 5. gr. upplýsingalaga, eftir að starfsemi þar er hætt.

Úrskurðarnefnd hefur einnig kynnt sér efni þeirra skýrslna sem kærendur hafa óskað eftir aðgangi að. Að áliti hennar er þar ekki að finna neinar þær upplýsingar um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni er réttlæti samkvæmt framansögðu að synja kærendum um aðgang að þeim. Að þessu athuguðu eru ekki að lögum skilyrði til að takmarka aðgang að framangreindum skýrslum.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, […], á hendur yfirdýralækni um að fá aðgang að gögnum mála er varða löggildingu sláturhúsanna í [A, B, C, D, E, F, G, H og I] er vísað frá.

Yfirdýralæknir skal veita kærendum, […], aðgang að skýrslu um sláturhús að [A], skýrslu um kjötfrystihús að [A] og skýrslu um skoðun á kjötverkunarstöð að [A], öllum dagsettum 6. ágúst 2004.

Páll Hreinsson, formaður

Friðgeir Björnsson

Sigurveig Jónsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum