Hoppa yfir valmynd
17. desember 2004 Forsætisráðuneytið

A-194/2004 Úrskurður frá 17. desember 2004

ÚRSKURÐUR


Hinn 17. desember 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-194/2004:


Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 17. nóvember sl., kærðu […] synjun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., dagsetta 25. október sl., um að veita þeim aðgang að gögnum um bílagæslu við flugstöðina. Jafnframt kærðu þau meðferð utanríkisráðuneytisins á sams konar beiðni.

Með bréfi, dagsettu 23. nóvember sl., var kæran kynnt utanríkisráðuneytinu og því beint til ráðuneytisins að afgreiða beiðni kærenda sem fyrst og eigi síðar en 10. desember sl. Færi svo að beiðninni yrði synjað var þess jafnframt óskað að nefndinni yrði látin í té, í trúnaði, afrit þeirra gagna, sem kæran lýtur að, innan sömu tímamarka. Í því tilviki var ráðuneytinu ennfremur gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til kærunnar og rökstyðja ákvörðun sína nánar. Utanríkisráðuneytið svaraði erindi nefndarinnar með bréfi, dagsettu 26. nóvember sl.

Ekki þótti ástæða til að leita álits Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. á málinu.


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að í tölvubréfum til utanríkisráðuneytisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., dagsettum 25. október sl., fóru kærendur þess á leit að fá aðgang að samningum, sem gerðir hafa verið við öryggisfyrirtækið Securitas um bílagæslu við flugstöðina, svo og að útboðs- og/eða forvalsgögnum sem og öðrum gögnum er legið hafi til grundvallar þeim samningum. Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. svaraði beiðni kærenda með tölvubréfi 27. október sl., en ráðuneytið hefur ekki svarað henni.

Í bréfi utanríkisráðuneytisins til úrskurðarnefndar er upplýst að hlutafélagið Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. sjái um alla starfsemi, sem flugstöðina varðar, í samræmi við 7. gr. laga nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ráðuneytið hvorki hafi umbeðin gögn í vörslum sínum né væri því heimilt að láta gögnin af hendi, ef svo væri, enda sé um að ræða samning milli verktaka og hlutafélags sem ráðuneytið eigi ekki aðild að.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

1.

Í 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir orðrétt: „Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.“ Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði m.a. skýrt svo að lögin gildi almennt „ekki um einkaaðila, en undir hugtakið einkaaðilar falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu.“

Samkvæmt framansögðu taka upplýsingalög því ekki til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., enda hefur því hlutafélagi ekki verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa framkominni kæru á hendur félaginu frá úrskurðarnefnd.


2.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr.“ Samkvæmt þessu er stjórnvöldum almennt skylt að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum þeirra.

Eins og fram kemur í lýsingu málsatvika hér að framan, hefur utanríkisráðuneytið lýst því yfir að ráðuneytið hafi ekki í vörslum sínum þau gögn sem kærendur hafa óskað eftir aðgangi að. Þar með liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds um að veita kærendum aðgang að skjölum eða annars konar gögnum í vörslum þess. Af þeim sökum verður málið ekki borið undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og ber þar af leiðandi að vísa því frá nefndinni.


Úrskurðarorð:

Kæru […] á hendur Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og utanríkisráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd.


Eiríkur Tómasson formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum