Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2004 Forsætisráðuneytið

A-190/2004 Úrskurður frá 15. nóvember 2004

ÚRSKURÐUR


Hinn 15. nóvember 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-190/2004:


Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 20. september sl., kærði […], alþingismaður, þá ákvörðun Fiskistofu, dagsetta 16. september sl., að synja honum um aðgang að upplýsingum um það á milli hvaða aðila viðskipti með aflamark í þorski hafi farið fram hinn 13. september sl.

Með bréfi, dagsettu 27. september sl., var kæran kynnt Fiskistofu og henni veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 11. október sl. Sérstaklega var þess óskað að í umsögn stofnunarinnar kæmi fram á hvaða formi umbeðnar upplýsingar séu varðveittar hjá henni. Umsögn Fiskistofu, dagsett 11. október sl., barst innan tilskilins frests.


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til Fiskistofu, dagsettu 13. september sl., fór kærandi þess á leit að fá upplýsingar um það hvaða lögaðilar hafi staðið að baki viðskiptum þess dags með þorsk.

Fiskistofa synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 16. september sl. Þar er tekið fram að stofnunin birti á vef sínum tilteknar upplýsingar um viðskipti með aflamark, þ.e. um fisktegund, magn, kílóverð og heildarverðmæti hverrar færslu sem skráð er. Hins vegar séu ekki birtar upplýsingar um það á milli hvaða aðila viðskiptin séu. Jafnframt kemur fram í bréfinu að upplýsingarnar séu birtar með þessum hætti í samráði við sjávarútvegsráðuneytið og með vísun til 4. mgr. 12. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, að teknu tilliti til ákvæða upplýsingalaga nr. 50/1996 er lúta að takmörkunum á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.


Með kæru, dagsettri 20. september sl., fylgdi yfirlit yfir viðskipti með aflamark í þorski sem tilkynnt voru Fiskistofu 13. september sl. Á yfirlitinu kemur fram að a.m.k. 37 slíkar tilkynningar hafi borist stofnuninni þann dag.

Í umsögn Fiskistofu til úrskurðarnefndar, dagsettri 11. október sl., segir að upplýsingar um millifærslur berist stofnuninni á sérstöku eyðublaði er nefnist Tilkynning til Fiskistofu um flutning aflmarks (krókaflamarks) milli skipa. Á þessu eyðublaði komi fram upplýsingar um það á milli hvaða skipa aflamark skuli flutt, hverjir séu eigendur skipanna og útgerðaraðilar. Þá sé þar að finna upplýsingar um magn einstakra fisktegunda og verðmæti þess magns. Tilkynningar þessar séu lagðar til geymslu í skjalsafni þegar upplýsingar úr þeim hafi verið skráðar og séu þær geymdar í gagnagrunni í tvennu lagi. Annars vegar sé um að ræða upplýsingar um hvenær og á milli hvaða skipa aflamark hafi verið flutt, ásamt magni í einstökum tegundum. Hins vegar upplýsingar um magn í einstökum tegundum, ásamt verðmæti án tenginga við skip eða forráðamenn þeirra.

Þá er í umsögn Fiskistofu áréttað að ákvörðun um að takmarka miðlun upplýsinga á vef stofnunarinnar hafi verið tekin í samráði við sjávarútvegsráðuneytið, að undangengum bréfaskiptum og fundum með starfsmönnum Persónuverndar og áður tölvunefndar. Þessu til skýringar fylgdu umsögninni afrit af tveimur erindum, annars vegar frá tölvunefnd, dagsettu 24. október 2000, og hins vegar frá Persónuvernd, dagsettu 25. júlí 2002.

Í umsögn Fiskistofu er staðfest að synjun hennar á beiðni kæranda hafi byggst á þeim ákvæðum upplýsingalaga er lúta að takmörkun á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna, enda sé erindi hans þess eðlis að það geti varðað einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni einstaklinga, stofnana, fyrirtækja ellegar annarra lögpersóna sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

Í öðrum málslið 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, eins og honum var breytt með 1. gr. laga nr. 83/2000, er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema óskað sé eftir aðgangi að skjölum eða öðrum gögnum sem 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga tekur til. Í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er kveðið svo á um að þau lög takmarki ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum.

Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er upplýsingaréttur almennings bundinn við aðgang að skjölum og öðrum sambærilegum gögnum sem skilgreind eru í 2. mgr. þeirrar greinar. Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir ennfremur orðrétt: „Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.“ Síðastgreint ákvæði er m.a. skýrt með svofelldum hætti í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga: „Beiðni um aðgang að gögnum er annaðhvort hægt að binda við tiltekin skjöl eða önnur gögn, sem aðili óskar eftir að fá að kynna sér, eða gögn tiltekins máls … Það leiðir af 1. mgr. að ekki er hægt að biðja um gögn í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili.“

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 gilda lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga um meðferð og vinnslu þeirra upplýsinga, sem Fiskistofu berast um viðskipti með aflaheimildir, þ.m.t. aflamark. Eins og áður greinir, þá gilda upplýsingalög um aðgang að upplýsingum ef óskað er eftir aðgangi að tilteknum skjölum eða öðrum gögnum ellegar gögnum úr tilteknu stjórnsýslumáli hjá opinberum stofnunum, þ. á m. Fiskistofu. Þar sem hér er um að ræða undantekningu frá meginreglunni í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 verður beiðni um aðgang að gögnum að vera mjög afmörkuð til þess að hún teljist borin fram á grundvelli upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna.

Líta verður á sérhverja tilkynningu um viðskipti með aflamark, er Fiskistofu berst, sem stjórnsýslumál í skilningi upplýsingalaga. Samkvæmt því lýtur beiðni kæranda að því að fá aðgang að gögnum í a.m.k. 37 málum. Með vísun til þess, sem að framan greinir, er beiðnin ekki svo afmörkuð að leysa beri úr henni á grundvelli þeirra laga. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd skv. 1. mgr. 14. gr. laganna.


Úrskurðarorð:

Kæru […] á hendur Fiskistofu er vísað frá úrskurðarnefnd.


Eiríkur Tómasson formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum