Hoppa yfir valmynd
27. september 2004 Forsætisráðuneytið

A-187/2004 Úrskurður frá 27. september 2004

ÚRSKURÐUR


Hinn 27. september 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-187/2004:


Kæruefni


Með bréfi, dagsettu 30. júlí sl., kærði […], til heimilis að […], synjun Heilbrigðisstofnunar Austurlands, dagsetta 23. júlí sl., um að veita honum aðgang að samningi um heilbrigðisþjónustu á virkjanasvæði Kárahnjúkavirkjunar.

Með bréfi, dagsettu 5. ágúst sl., var kæran kynnt Heilbrigðisstofnuninni og henni veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 19. ágúst sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té, í trúnaði, afrit þeirra gagna, sem kæran laut að, innan sama frests. Umbeðin gögn bárust innan tilskilins frests, en umsögn stofnunarinnar, dagsett 30. ágúst sl., barst nokkru síðar vegna sumarleyfa starfsmanna hennar.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti hennar við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til Heilbrigðisstofnunar Austurlands, dagsettu 30. júní sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að samningi sem gerður var milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Landsvirkjunar og verktakafyrirtækisins Impregilo S.p.A. um framkvæmd heilsugæslu á Kárahnjúkasvæðinu haustið 2003. Í bréfi hans kemur fram að hann eigi sæti í sjúkraflutningaráði landlæknis og telji sér sem slíkum nauðsyn á að fá aðgang að hinum umbeðnu gögnum.

Heilbrigðisstofnunin synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 23. júlí sl., með vísun til þess að samningurinn tilheyri þeim aðilum sem að honum standa. Verði hann ekki afhentur öðrum en fulltrúum þeirra.

Í umsögn Heilbrigðisstofnunarinnar til nefndarinnar, dagsettri 30. ágúst sl., er tekið fram að samningurinn innihaldi viðskiptalegar upplýsingar. Því sé ekki unnt að afhenda hann öðrum, án samþykkis samningsaðila. Staða kæranda sem heilbrigðisstarfsmanns breyti engu um þá afstöðu. Á hinn bóginn er vakin athygli á því að samningurinn hafi hlotið samþykki heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og verið kynntur landlækni.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

Heilbrigðisstofnun Austurlands er ríkisstofnun, sem varð til við samruna sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva á Austurlandi, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, sbr. 1. gr. laga nr. 78/2003. Stofnunin fellur því undir gildissvið upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr.“ Með hliðsjón af markmiði laganna ber að skýra undantekningar frá þessari meginreglu þröngt, þ. á m. regluna í 5. gr. þeirra.

Í 5. gr. laganna er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila“ „… sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá sam-þykki sem í hlut á“. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

Upplýsingar um þjónustu hins opinbera við einkafyrirtæki og greiðslur fyrir hana, sem sérstaklega hefur verið samið um, geta að sjálfsögðu varðað mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækjanna. Hins vegar verða þau að sætta sig við að slíkar upplýsingar verði kunngerðar opinberlega vegna fyrirmæla upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni samnings þess sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að. Samningurinn er á ensku og er hann dagsettur 7. október 2003. Með vísun til þess, sem að framan greinir, lítur nefndin svo á að þar sé ekki að finna neinar þær upplýsingar um atvinnu- og viðskiptaleyndarmál ellegar rekstrar- eða samkeppnisstöðu viðsemjenda Heilbrigðisstofnunarinnar, Landsvirkjunar eða Impregilo S.p.A., sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari skv. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt því ber að veita kæranda aðgang að samningnum í heild sinni.


Úrskurðarorð:

Heilbrigðisstofnun Austurlands ber að veita kæranda, […], aðgang að samningi milli stofnunarinnar, Landsvirkjunar og Impregilo S.p.A. um heilbrigðisþjónustu fyrir starfsmenn við gerð Kárahnjúkavirkjunar sem dagsettur er 7. október 2003.


Eiríkur Tómasson formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum