Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2004 Forsætisráðuneytið

A-185/2004 Úrskurður frá 23. ágúst 2004

ÚRSKURÐUR

Hinn 23. ágúst 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-185/2004:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 15. júní sl., kærði […] hdl., fyrir hönd […], sálfræðings, synjun Reykjavíkurborgar, dagsetta 1. júní sl., um að veita honum aðgang að launaseðlum þriggja nafngreindra einstaklinga á nánar tilteknu tímabili.

Með bréfi, dagsettu 5. júlí sl., var kæran kynnt Reykjavíkurborg og henni veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 20. júlí sl. Sérstaklega var þess óskað að í umsögn borgarinnar kæmi fram hvort umbeðin gögn væru til hjá henni. Ef ekki, var þess jafnframt óskað að í umsögninni kæmi fram á hvaða formi upplýsingar í þeim væru varðveittar. Umsögn borgarinnar, dagsett 19. júlí sl., barst hinn 20. júlí sl., ásamt afriti af fylgiskjali með kjarasamningi borgarinnar og Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi sem dagsett er 31. október 2001.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti hennar við meðferð og úrskurð í máli þessu.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfum, dagsettum 25. maí sl., fór Stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi fram á það, fyrir hönd kæranda, að fá aðgang að launaseðlum þriggja nafngreindra karla, er allir starfa sem sálfræðingar hjá Reykjavíkurborg, á tímabilinu frá 1. apríl 2001 til 1. maí 2004. Til vara var þess krafist að aðgangur yrði veittur að hluta, þannig að hann tæki eingöngu til fastra starfskjara umræddra starfsmanna. Í beiðnunum er tekið fram að kærandi starfi einnig sem sálfræðingur hjá Reykjavíkurborg og hún telji nauðsynlegt að fá aðgang að þessum upplýsingum til að geta metið heildstætt, hvort munur á launum hennar og þremenninganna geti varðað við jafnréttislög.

Reykjavíkurborg synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 1. júní sl., þar sem segir að ljósrit eða afrit af mánaðarlegum launaseðlum umræddra þriggja starfsmanna liggi ekki fyrir hjá kjaraþróunardeild borgarinnar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem deildin hafi, séu einu föstu laun starfsmannanna mánaðarlaun þeirra, en aðrar greiðslur til þeirra séu breytilegar frá einum mánuði til annars. Jafnframt er tekið fram að deildin hafi áður veitt Stéttarfélaginu upplýsingar um grunnlaunaröðun starfsmannanna í bréfi til félagsins, dagsettu 9. febrúar sl.

Í kæru til úrskurðarnefndar er áréttað að kærandi hafi ástæðu til að ætla að ábyrgð, sem hún ber í starfi, endurspeglist ekki nægilega vel í starfskjörum hennar í samanburði við karlkyns sálfræðinga sem starfi hjá Reykjavíkurborg. Þess vegna megi ætla að ákvæði jafnréttislaga nr. 96/2000 hafi verið brotin gagnvart henni.

Í umsögn Reykjavíkurborgar, dagsettri 19. júlí sl., kemur fram að upplýsingar um starfsmenn borgarinnar, þ. á m. starfskjör þeirra, séu geymd með rafrænum hætti í starfsmanna- og launakerfi Oracle, en kjaraþróunardeild hafi yfirumsjón með kerfinu. Launaseðlar starfsmanna séu sendir þeim mánaðarlega, milliliðalaust, eftir hverja launakeyrslu, en liggi ekki fyrir hjá kjaraþróunardeild eða öðrum stofnunum borgarinnar. Með vísun til gildissviðs upplýsingalaga, eins og það sé afmarkað með tilliti til persónuupplýsinga í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. lög nr. 83/2000, gildi upplýsingalög ekki um aðgang að upplýsingum sem varðveittar eru í starfsmanna- og launakerfi borgarinnar.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í öðrum málslið 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, eins og honum var breytt með 1. gr. laga nr. 83/2000, er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema óskað sé eftir aðgangi að skjölum eða öðrum gögnum sem 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga tekur til. Í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er kveðið svo á um að þau lög takmarki ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum.

Ákvæði 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er svohljóðandi: „ Réttur til aðgangs að gögnum nær til: 1. allra skjala sem mál varða, þar með talinna endurrita af bréfum sem stjórnvald hefur sent, enda megi ætla að það hafi borist viðtakanda; 2. allra annarra gagna sem mál varða, svo sem teikninga, uppdrátta, korta, mynda, örfilma og gagna sem vistuð eru í tölvu; 3. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn." Skýra ber tilvísunina, „gagna sem vistuð eru í tölvu" í 2. tölul. þessarar málsgreinar með hliðsjón af 1. tölul. hennar, þar sem vísað er til „skjala sem mál varða, þar með talinna endurrita af bréfum . . ." Það þýðir að réttur til aðgangs að gögnum, sem vistuð eru í tölvu, er einskorðaður við afmörkuð rafræn skjöl á borð við afrit af bréfum eða samningum. Í samræmi við það hvílir ekki skylda á stjórnvöldum samkvæmt upplýsingalögum að láta í té upplýsingar, sem fyrir hendi eru hjá þeim, nema þær sé að finna í afmörkuðum skjölum eða sambærilegum gögnum, þ. á m. gögnum sem vistuð eru í tölvu.

Í máli því, sem hér er til úrlausnar, óskar kærandi eftir aðgangi að launaseðlum þriggja nafngreindra starfsmanna Reykjavíkurborgar á rúmlega þriggja ára tímabili. Því er lýst yfir af hálfu borgarinnar að ekki séu til í vörslum hennar ljósrit eða annars konar afrit af hinum umbeðnu launaseðlum, heldur séu þær upplýsingar, sem koma fram á seðlunum, geymdar með rafrænum hætti á fleiri en einum stað í starfsmanna- og launakerfi borgarinnar. Þar sem ekki er ástæða til að vefengja þessa yfirlýsingu, verður samkvæmt framansögðu ekki leyst úr beiðni kæranda á grundvelli upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. laganna. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd skv. 1. mgr. 14. gr. þeirra laga.

Úrskurðarorð:

Kæru [...] á hendur Reykjavíkurborg er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður

Ólafur E. Friðriksson

Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum