Hoppa yfir valmynd
10. júní 2004 Forsætisráðuneytið

A-180/2004 Úrskurður frá 10. júní 2004

ÚRSKURÐUR

Hinn 10. júní 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-180/2004:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 1. apríl sl., kærði [ …] , til heimilis að [ …] í [ …] , synjun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins um að veita honum aðgang að upplýsingum um söluverð og greiðsluskilmála á vörumerkinu [ A] þegar sjóðurinn seldi það.

Með bréfi, dagsettu 12. maí sl., var kæran kynnt Nýsköpunarsjóði og stofnuninni veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni kl. 16.00 hinn 21. maí sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu í trúnaði látin í té afrit þeirra gagna, sem kæran lýtur að, innan sömu tímamarka. Að ósk Nýsköpunarsjóðs var frestur þessi framlengdur til 24. maí sl. Þann dag barst umsögn Kristínar Edwald hdl. f.h. sjóðsins, dagsett 21. maí sl., ásamt eftirtöldum gögnum:

  1. Tilboði félagsins [ …] í vörumerki [ A] , dagsettu 20. febrúar 2003.
  2. Svarbréfi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, dagsettu 21. febrúar 2003.
  3. Kaupsamningi um vörumerki, dagsettum 25. apríl 2003.

Umsögn Nýsköpunarsjóðs fylgdi jafnframt umsögn 18 ehf., dagsett 21. maí sl., um kæruna.

Í fjarveru Eiríks Tómassonar tók Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður sæti hans í nefndinni við meðferð og úrskurð í máli þessu.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þau að við gjaldþrot fyrirtækisins [ A] árið 2003 eignaðist Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins vörumerki þess. Með ódagsettu bréfi kæranda til sjóðsins fór hann fram á að fá svar við tilboði sínu í vörumerkið [ A] og upplýsingar um hvað greitt hefði verið fyrir merkið þegar það var selt. Í bréfi Nýsköpunarsjóðs til kæranda, dagsettu 24. febrúar sl., var áréttað að gengið hefði verið til samninga við annan tilboðsgjafa og í framhaldi af því gerður við hann kaupsamningur um vörumerkið.

Kærandi ítrekaði beiðinu sína um upplýsingar um söluverð vörumerkisins og um greiðslukjör þess með bréfi, dagsettu 27. febrúar sl. Nýsköpunarsjóður synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 9. mars sl. Þar kom fram að synjun sjóðsins væri byggð á 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem umbeðnar upplýsingar vörðuðu mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni kaupandans.

Með bréfi til Nýsköpunarsjóðs, dagsettu 10. mars sl., áréttaði kærandi að hann gæti á engan hátt sætt sig við að tilvitnað ákvæði kæmi í veg fyrir að hann fengi aðgang að umbeðnum upplýsingum, enda hefði hann verið aðili að því máli sem upplýsingarnar varða.

Í umsögn umboðsmanns Nýsköpunarsjóðs til úrskurðarnefndar er áréttað að sjóðurinn telji umbeðnar upplýsingar varða svo mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni [ B] ehf. að þeir gætu skaðast, ef öðrum væri veittur að þeim aðgangur, sér í lagi samkeppnisstaða þess. Þessari umsögn fylgdi jafnframt umsögn fyrirtækisins sem upplýsingarnar varða, [ B] ehf., þar sem eindregið er lagst gegn því að öðrum verði veittur aðgangur að umbeðnum upplýsingum, sér í lagi keppinautum þess.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Svo sem fram kemur í málsatvikalýsingu hér að framan átti kærandi annað tveggja tilboða sem bárust Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins í vörumerkið [ A] . Með bréfi, dagsettu 24. febrúar sl. tilkynni Nýsköpunarsjóður kæranda að gengið hefði verið til samninga við hinn tilboðsgjafann og gerður við hann kaupsamningur um vörumerkið í framhaldi af því.

Sá tilboðsgjafi sem ekki var samið við á ekki aðild að þeim samningi og upplýsingar sem þar koma fram eru ekki „um hann sjálfan" svo sem 9. gr. upplýsingalaga áskilur. Um aðild kæranda að samningi þessum eða upplýsingar úr honum ber því að fjalla á grundvelli II. kafla upplýsingalaga.

2.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr." Með hliðsjón af markmiði laganna ber að skýra undantekningar frá þessari meginreglu þröngt.

Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila ... sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á". Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskipta-hagsmuni."

Rétt þykir í þessu sambandi að líta til 47. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup, við úrlausn málsins en þar segir, að bjóðendum sé heimilt að vera við opnun tilboða og fá þar upplýsingar um nafn bjóðanda, heildartilboðsupphæð, greiðsluskilmála, afhendingarskilmála, og eðli frávikstilboða.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni kaupsamnings milli annars vegar fyrirtækisins [ B] ehf. og Nýsköpunarsjóðs hins vegar. Er það niðurstaða nefndarinnar, að teknu tilliti til þess sem hér að framan er rakið, að upplýsingar um söluverð og greiðsluskilmála sem óskað er aðgangs að varði ekki mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni kaupanda sem eðlilegt sé og sanngjarnt að leynt fari, skv. 5 gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt því, og með vísan til þess sem hér að framan greinir, er það niðurstaða úrskurðarnefndar að Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins beri að veita kæranda aðgang að upplýsingum um söluverð og greiðsluskilmála á vörumerkinu [ A] samkvæmt kaupsamningi dagsettum 25. apríl 2003.

Úrskurðarorð:

Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins beri að veita kæranda aðgang að upplýsingum um söluverð og greiðsluskilmála á vörumerkinu [ A] sem fram koma í 2. tölulið kaupsamnings dagsettum 25. apríl 2003.

Valtýr Sigurðsson, formaður

Elín Hirst

Steinunn Guðbjartsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum