Hoppa yfir valmynd
24. maí 2004 Forsætisráðuneytið

A-175/2004 Úrskurður frá 24. maí 2004

ÚRSKURÐUR

Hinn 24. maí 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-175/2004:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 6. apríl sl., kærði [ …] , f.h. [ …] , synjun nefndar skv. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 um að veita honum aðgang að álitsgerðum nefndarinnar vegna kvartana allt aftur til ársins 2000.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu 12. maí sl., var kæranda bent á að nefndin hafi, í samræmi við 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, ítrekað vísað frá nefndinni kærum sem varða aðgang að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund eða frá ákveðnu tímabili. Að þessu athuguðu var kæranda bent á að búast mætti við að máli hans yrði vísað frá nefndinni, ef hann óskaði eftir að það gengi til úrskurðar.

Með tölvubréfi til nefndarinnar, dagsettu 13. maí sl., áréttaði kærandi ósk sína um að mál hans yrði tekið til formlegs úrskurðar. Af því tilefni benti hann [ á] að nefnd skv. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 hafi birt endurrit álitsgerða fyrri ára á veraldarvefnum. Í beiðni hans felist því ekki annað en að fá aðgang að sams konar upplýsingum á því árabili er beiðni hans tekur til. Til vara krefst hann þess að fá aðgang að úrlausnum í málum nr. 1-12/2000, 1-12/2001, 1-12/2002 og 1-12/2003. Til þrautavara krefst hann þess að fá aðgang að skýrslum yfir álitsgerðir nefndarinnar fyrir árin 2000, 2001, 2002 og 2003.

Málsatvik

Samkvæmt kæru eru atvik málsins í stuttu máli þau að 23. mars sl. fór kærandi fram á, með tölvubréfi til formanns nefndar skv. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, að fá aðgang að niðurstöðum nefndarinnar í málum, þar sem kvartað hafi verið yfir meintum mistökum á heilbrigðisstofnunum á tímabilinu frá 2000 til síðasta úrskurðar. Með tölvubréfi formanns nefndarinnar, dagsettu sama dag, var því beint til kæranda að gera nánar grein fyrir beiðni sinni. Kæranda svaraði samdægurs á sama hátt með því að ítreka beiðni sína, án þess að tilgreina nánar það mál eða þau mál sem hann óskaði eftir að fá upplýsingar um.

Með öðru tölvubréfi frá formanni nefndarinnar, dagsettu 26. mars sl., greindi hann kæranda frá því að beiðni hans væri hafnað með vísun til þagnarskylduákvæðis í 10. gr. starfsreglna nefndarinnar nr. 150/1985. Í ljósi þess telji nefndin sér „allavega óheimilt að veita aðgang að nöfnum þeirra einstaklinga sem fyrir koma í álitsgerðunum". Jafnframt var kæranda greint frá því að nefndin hyggist vinda bráðan bug að því gera útdrátt úr þessum álitsgerðum til birtingar á netinu á sama hátt og gert hafi verið fyrir þann tíma sem beiðni kæranda tekur til. Sama afstaða var síðar áréttuð í enn öðru tölvubréfi formanns nefndarinnar til kæranda, dagsettu 31. mars sl., að því við bættu að nefndin vísi jafnframt til 5. gr. upplýsingalaga, til áréttingar afstöðu sinni.

Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kæru sinni. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. - 6. gr." Ennfremur segir í 1. mgr. 10. gr. laganna: „Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða."

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er síðarnefnda ákvæðið skýrt með eftirgreindum hætti: „Beiðni um aðgang að gögnum er annaðhvort hægt að binda við tiltekin skjöl eða önnur gögn, sem aðili óskar eftir að fá að kynna sér, eða gögn tiltekins máls. Þegar óskað er eftir að fá aðgang að gögnum tiltekins máls á hlutaðeigandi rétt á að fá aðgang að öllum þeim gögnum sem talin eru upp í 2. mgr. 3. gr., enda standi ákvæði 4.- 6. gr. því ekki í vegi. – Í beiðni verður að tilgreina gögnin eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á gögnunum eða málinu. – Það leiðir af 1. mgr. að ekki er hægt að biðja um gögn í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Í frumvarpinu er gengið út frá sömu tilhögun og fram kemur í norsku og dönsku upplýsingalögunum um þetta efni, þ.e. að tilgreina verður þau gögn eða það mál sem beiðni beinist að."

Með hliðsjón af 3. gr. upplýsingalaga og athugasemdunum, sem vitnað er til hér að framan, hefur úrskurðarnefnd skýrt umrætt ákvæði í 1. mgr. 10. gr. laganna svo að ekki sé unnt, í sömu beiðni, að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala, sem varða fleiri en eitt mál, jafnvel þótt skjölin séu nægilega tilgreind. Í máli því, sem til úrlausnar er, óskar kærandi eftir að fá aðgang að álitsgerðum nefndar, sem starfar á grundvelli 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990, án þess að tilgreina þær álitsgerðir, sem hann fer fram á að fá aðgang að, eða þau mál sem þar er fjallað um. Samkvæmt framansögðu fullnægir slík beiðni ekki þeim skilyrðum sem upplýsingalög setja. Verður þar með að staðfesta hina kærðu ákvörðun nefndarinnar um að synja kæranda um aðgang að álitsgerðum hennar, eins og beiðni hans er úr garði gerð. Breyta framangreindar vara- og þrautavarakröfur hans fyrir úrskurðarnefnd engu um þessa niðurstöðu.

Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun nefndar skv. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 að synja beiðni kæranda, [ …] , f.h. [ …] , um aðgang að álitsgerðum nefndarinnar á tilteknu árabili.

Eiríkur Tómasson, formaður

Elín Hirst

Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum