Hoppa yfir valmynd
17. desember 2003 Forsætisráðuneytið

A-166/2003 Úrskurður frá 17. desember 2003

ÚRSKURÐUR

Hinn 17. desember 2003 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-166/2003:

Kæruefni

Með bréfum, dagsettum 24. október sl., kærðu [ …] og [ …] , til heimilis að [ …] á [ …] , synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsetta 3. október sl., og ríkislögreglustjóra, dagsetta 24. september sl., um að veita þeim aðgang að gögnum sem varða andlát sonar þeirra í Hollandi.

Með bréfum, dagsettum 29. október sl., voru kærurnar kynntar dóms- og kirkjumálaráðuneyti og ríkislögreglustjóra og þeim veittur frestur til að gera við þær athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum til kl. 16.00 hinn 10. nóvember sl. Jafnframt var þess óskað að stjórnvöldin létu úrskurðarnefnd í té skrár um þau gögn málsins, sem kærurnar lúta að, innan sama frests. Að beiðni ríkislögreglustjóra var frestur þessi framlengdur til 17. nóvember sl. Umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsett 6. nóvember sl., barst innan tilskilins frests, en umsögn ríkislögreglustjóra, dagsett 18. nóvember sl., barst hinn 19. nóvember sl. Báðum umsögnum fylgdu umbeðnar skrár.

Að lokinni athugun á málinu og fyrirliggjandi gögnum, fór úrskurðarnefnd þess á leit við ríkislögreglustjóra með bréfi, dagsettu 10. desember sl., að nefndinni yrðu afhent afrit af tveimur nánar tilgreindum skjölum í vörslum embættisins sem kærurnar lúta að. Umbeðin afrit bárust nefndinni daginn eftir.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að sonur kærenda, [ …] , hvarf í Rotterdam í Hollandi 27. júní 2002 og fannst síðar látinn þar tveimur dögum síðar, 29. júní 2002. Fljótlega eftir andlát hans leituðu kærendur eftir atbeina íslenskra stjórnvalda til þess að fylgja eftir rannsókn á aðdraganda þess í Hollandi. Var aðstoðaryfirlögregluþjóni við embætti ríkislögreglustjóra falið að annast um það af hálfu hérlendra stjórnvalda. Með bréfi til ríkislögreglustjóra, dagsettu 15. september sl., og til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dagsettu 19. september sl., fóru kærendur fram á að fá aðgang að öllum gögnum um málið í vörslum þessara tveggja stjórnvalda.

Með bréfi ríkislögreglustjóra, dagsettu 24. september sl., var beiðni kæranda synjað með vísun til 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, á þeim grundvelli að gögn málsins varði rannsókn á opinberu máli sem ekki sé lokið og sé auk þess í höndum hollenskra yfirvalda. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 3. október sl., á sama grundvelli að því er varðar þau gögn í vörslum ráðuneytisins sem það telur að beint varði hina opinberu rannsókn. Í bréfi ráðuneytisins segir orðrétt: „Um er að ræða í öllum tilvikum afrit af bréfum sem ráðuneytinu hafa borist og gengið hafa á milli ríkislögreglustjóra og hollenskra lögregluyfirvalda." Svo virðist sem kærendum hafi á hinn bóginn verið veittur aðgangur að öllum öðrum gögnum sem skráð eru á sama mál í ráðuneytinu.

Í kærum til nefndarinnar, dagsettum 24. október sl., vísa kærendur til hagsmuna sinna sem foreldra látins sonar síns af því að fá upplýsingar um framvindu rannsóknar á láti hans. Jafnframt er dregið í efa að opinber rannsókn í öðru landi geti takmarkað aðgang að gögnum þess hér á landi.

Í umsögn ríkislögreglustjóra til úrskurðarnefndar, dagsettri 18. nóvember sl., er gerð grein fyrir aðstoð embættisins við að upplýsa málið. Fram kemur að ríkislögreglustjóraembættið hafi reynt að koma að málinu með þeim hætti að gögn, sem aflað er hér á landi, nýtist við rannsókn málsins í Hollandi og að áhersla hafi verið lögð á að vanda verði til meðferðar þeirra svo að þau haldi gildi sínu sem gögn í sakamáli í Hollandi, ef til kæmi. Síðan segir orðrétt í umsögninni: „Mál þetta sætir rannsókn opinbers máls í Hollandi og er forræði þess alfarið í höndum yfirvalda þar, þ.e. lögreglu og saksóknara. Tekist hefur að koma á samskiptum milli ríkislögreglustjórans og hollenskra yfirvalda sem hafa fallist á að láta af hendi tiltekin gögn og taka við gögnum frá Íslandi og yfirfara þau í tengslum við þessa rannsókn . . . Hollensk yfirvöld geta á hvaða stigi málsins sem er afþakkað hjálp íslensku lögreglunnar enda hvílir engin lagaskylda á þeim að haga málum með þeim hætti sem þau hafa kosið hér."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Mál það, sem til úrlausnar er, varðar beiðni kærenda um aðgang að gögnum í vörslum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og ríkislögreglustjóra er lúta að rannsókn sem fram fer á aðdraganda að andláti sonar þeirra í Hollandi. Rannsóknin beinist að því að upplýsa hvort lát hans verði rakið til refsiverðs verknaðar og, ef svo er, hver eða hverjir hafi verið þar að verki. Þótt íslensk yfirvöld og rannsóknaraðilar hafi veitt aðstoð við rannsóknina er hún í höndum hollenskra yfirvalda.

Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin gildi ekki „um rannsókn eða saksókn í opinberu máli." Samkvæmt þessu lagaákvæði er enginn greinarmunur gerður á því hvort rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi fer fram hér á landi eða erlendis. Þar af leiðandi tekur ákvæðið til þeirrar rannsóknar sem mál þetta snýst um.

Ekki er tekið fram í upplýsingalögum eða lögskýringargögnum hvers konar gögn það eru sem varða rannsókn eða saksókn í opinberu máli í skilningi hins tilvitnaða lagaákvæðis. Þó er ljóst að til þeirra teljast skjöl og önnur gögn, sem eru eða munu að öllum líkindum koma til skoðunar við rannsókn lögreglu á ætluðum refsiverðum brotum. Ennfremur hljóta bréfaskipti milli lögregluyfirvalda og, eftir atvikum, handhafa ákæruvalds vegna rannsóknar opinbers máls að flokkast undir slík gögn, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar 6. desember 2001 í máli nr. A-137/2001.

Skýra verður beiðni kærenda um aðgang að gögnum á þann veg að þau fari fram á að fá afhent afrit af þeim skjölum, sem eru í vörslum stjórnvaldanna tveggja og lúta að umræddri rannsókn, þó ekki þeim skjölum sem stafa frá þeim sjálfum ellegar þeim eða lögmanni þeirra hafa verið send. Þau skjöl, sem kærendur fara þannig fram á að fá aðgang að og eru í vörslum ríkislögreglustjóra, eru í fyrsta lagi lögregluskýrsla, í öðru lagi bréfaskipti ríkislögreglustjóra við hollensk yfirvöld (í einu tilviki fyrir milligöngu sendiráðs Íslands í Lundúnum), í þriðja lagi bréfaskipti hans og hollenskra yfirvalda við sambandsskrifstofu lögreglu Norðurlanda í Hollandi, í fjórða lagi bréfaskipti hans við íslenska rannsóknaraðila, í fimmta lagi rannsóknargögn íslenskra rannsóknaraðila og bréfaskipti þeirra við hollensk yfirvöld og í sjötta lagi bréfaskipti ríkislögreglustjóra við utanríkisráðuneyti og minnisblað hans til dóms- og kirkjumálaráðuneytis um málavexti. Þau skjöl, sem kærendur hafa óskað eftir aðgangi að og eru í vörslum ráðuneytisins, varða bréfaskipti þess og ríkislögreglustjóra við hollensk yfirvöld og sambandsskrifstofu lögreglu Norðurlanda í Hollandi, ef frá er talið fyrrgreint minnisblað frá ríkislögreglustjóra.

Með skírskotun til þess, sem að framan segir, er það álit úrskurðarnefndar að öll þau skjöl, sem talin eru upp hér að framan, að undanskildu minnisblaði ríkislögreglustjóra til dómsmálaráðuneytis og bréfaskipti hans við utanríkisráðuneyti, séu þess eðlis að þau varði rannsókn opinbers máls í skilningi ákvæðisins í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Vegna þess að ekki verður krafist aðgangs að skjölunum á grundvelli upplýsingalaga verður synjun um aðgang að þeim ekki kærð til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Ber því að vísa frá nefndinni þeim hluta kæranna sem snúa að þessum skjölum.

Eins og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar 6. september 2001 í máli nr. A-127/2001, áskilur nefndin sér rétt til þess að meta það, í ljósi atvika hverju sinni, hvort aðgangur skuli veittur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga þótt þau kunni að tengjast rannsókn opinbers máls. Í því efni skiptir m.a. máli hvort ætla megi að gögn þau, sem um er að ræða, verði tekin til skoðunar við rannsókn málsins.

Í bréfum þeim, sem farið hafa á milli ríkislögreglustjóra og utanríkisráðuneytis og auðkennd eru nr. 5, 7, 21, 22 og 23 í skjalaskrá ríkislögreglustjóraembættisins, er fyrst og fremst að finna upplýsingar um afskipti íslenskra stjórnvalda af rannsókn þeirri sem mál þetta snýst um. Sama máli gegnir um minnisblað ríkislögreglustjóra til dómsmálaráðuneytis, sem auðkennt er nr. 13 í skjalaskránni, þótt þar sé greint ítarlegar frá málavöxtum. Ekki verður séð að þessi skjöl, sem farið hafa á milli íslenskra stjórnvalda, verði tekin til skoðunar við rannsókn þá sem fram fer á vegum hollenskra yfirvalda og mál þetta er sprottið af. Samkvæmt því og með vísun til þess, sem að framan greinir, lítur úrskurðarnefnd svo á að leysa beri úr rétti kærenda til aðgangs að þessum síðastgreindu skjölum á grundvelli upplýsingalaga, enda er hér ekki um að ræða mál, þar sem tekin verður ákvörðun af hérlendum stjórnvöldum um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

2.

Kærendur hafa sem foreldrar látins sonar síns einstaklega hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að síðastgreindum skjölum. Af þeim sökum ber að leysa úr beiðni þeirra samkvæmt III. kafla upplýsingalaga.

Í 1. mgr. 9. gr. laganna segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Samkvæmt 3. mgr. þeirrar greinar er heimilt að takmarka aðgang skv. 1. mgr. „að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum."

Þótt í skjölunum, einkum í minnisblaði ríkislögreglustjóra til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, sé að finna upplýsingar um persónuleg málefni, sem sanngjarnt er og eðlilegt að haldið sé leyndum fyrir almenningi, að minnsta kosti á þessu stigi máls, er ekkert sem mælir á móti því að kærendur fái aðgang að þeim sem nánustu eftirlifandi aðstandendur hins látna. Samkvæmt því ber ríkislögreglustjóra að veita þeim aðgang að umræddum sex skjölum og jafnframt ber dóms- og kirkjumálaráðuneyti að veita þeim aðgang að minnisblaði ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins.

Úrskurðarorð:

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti ber að veita kærendum, [ …] og [ …] , aðgang að minnisblaði ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins, dagsettu 21. nóvember 2002, varðandi rannsókn á andláti sonar þeirra. Ríkislögreglustjóra ber að veita kærendum aðgang að skjölum varðandi sömu rannsókn, sem einkennd eru nr. 5, 7, 13, 21, 22 og 23 í skjalalista ríkislögreglustjóraembættisins, dagsettum 18. nóvember sl. Kærum þeirra á hendur dóms- og kirkjumálaráðuneyti og ríkislögreglustjóra er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður

Elín Hirst

Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum