Hoppa yfir valmynd
3. september 2003 Forsætisráðuneytið

A-164/2003 Úrskurður frá 3. september 2003

ÚRSKURÐUR

Hinn 3. september 2003 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-164/2003:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 16. júlí sl., kærði [ …] hdl. f.h. [ A] ehf. og [ B] ehf. synjun framkvæmdanefndar um einkavæðingu, dagsetta 26. júní sl., um að veita umbjóðendum hans aðgang að mati Verðbréfastofunnar á tilboðum í útboði á hlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum hf. og að tilboðum annarra tilboðsgjafa í því.

Með bréfi, dagsettu 24. júlí sl., var kæran kynnt framkvæmdanefnd um einkavæðingu og henni veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 8. ágúst sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrði í trúnaði látin í té afrit af þeim göngum, sem kæran laut að, innan sama frests. Umsögn framkvæmdanefndar um einkavæðingu, dagsett 7. ágúst sl., barst innan tilskilsins frests ásamt umbeðnum gögnum.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti hennar við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Í fjarveru Eiríks Tómassonar og Elínar Hirst tóku varamennirnir Steinunn Guðbjartsdóttir og Ólafur E. Friðriksson sæti þeirra við meðferð og úrskurð í máli þessu.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þau að kærendur voru meðal tilboðsgjafa í 39,86% eignarhlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum hf., sem framkvæmdanefnd um einkavæðingu auglýsti f.h. utanríkisráðherra til sölu síðastliðinn vetur. Tilboði þeirra var ekki tekið en auk kæranda buðu þrír aðilar í eignarhlutann þ. e. [ …] ehf, [ …] hf. og [ …] ehf. Með bréfi til framkvæmdanefndar um einkavæðingu, dagsettu 28. apríl sl., fór umboðsmaður kærenda fram á aðgang að greinargerð Verðbréfastofunnar hf. sem framkvæmdi mat á tilboðunum. Framkvæmdanefnd synjaði beiðninni með bréfi, dagsettu 14. maí sl., á þeim forsendum að um væri að ræða upplýsingar um svo mikilvæga viðskiptahagsmuni tilboðsgjafa að óheimilt væri að veita að þeim aðgang á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Með öðru bréfi, dagsettu 11. júní sl., ítrekaði umboðsmaður kærenda beiðni um aðgang að greinargerð Verðbréfastofunnar hf. og fór með vísan til hagsmuna þeirra sem tilboðsgjafa fram á að fá aðgang að tilboðum annarra tilboðsgjafa á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi framkvæmdanefndar um einkavæðingu, dagsettu 26. júní sl., var því hafnað að fjalla um rétt kærenda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli stjórnsýslulaga. Á hinn bóginn þótti aðild þeirra að útboði leiða til þess að fjalla bæri um beiðni þeirra á grundvelli III. kafla upplýsingalaga. Var það niðurstaða nefndarinnar að upplýsingar um mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni annarra tilboðsgjafa í tilboðum þeirra kæmi í veg fyrir að unnt væri að veita umbjóðendum hans aðgang að þeim, sbr. 3. gr. 9. gr. upplýsingalaga. Sama ætti við um mat Verðbréfastofunnar á öðrum tilboðum, en jafnframt taldi nefndin að rök stæðu til að undanskilja það skjal aðgangi á grundvelli 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 9. gr. s.l., enda væri það eingöngu unnið sem vinnuskjal fyrir nefndina og hefði ekki verið sýnt öðrum.

Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærendur hyggist bera lögmæti sölu fyrirtækisins undir dómstóla. Af þeim sökum sé þeim nauðsynlegt að fá aðgang að umbeðnum gögnum. Jafnframt er því vísað á bug að tilvitnaðar lagagreinar standi til að takmarka aðgang þeirra þeim.

Í umsögn framkvæmdanefndar um einkavæðingu til úrskurðarnefndar, dagsettri 7. ágúst sl., er fyrri afstaða nefndarinnar áréttuð og sérstaklega tekið fram að ekkert sé fram komið sem gefi henni tilefni til að endurskoða þá afstöðu sína.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga er svo fyrir mælt að þau taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu, sem er nefnd sem starfar á vegum ráðherranefndar um einkavæðingu, fellur ótvírætt undir lögin.

2.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Úrskurðarnefnd lítur svo á að kærandi sé aðili máls í skilningi hins umrædda ákvæðis þar eð hann hefur augljósa hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum.

Samkvæmt framansögðu er í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga mælt svo fyrir að skylt sé að veita aðila máls aðgang að gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar er snerta hann sjálfan. Í 2. og 3. mgr. þeirrar greinar er að finna undantekningar frá þessari meginreglu, þ. á m. segir í 1. tölul. 2. mgr. að ákvæði 1. mgr. gildi ekki „um þau gögn sem talin eru í 4. gr." laganna. Þá segir ennfremur orðrétt í 3. mgr.: „Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum."

Í 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga segir að réttur til aðgangs að gögnum taki ekki til „vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota; þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá". Samkvæmt því, sem fram kemur í lýsingu málsatvika, er ekki fallist á að mat Verðbréfastofunnar hf. á tilboðsgjöfum sé vinnuskjal skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

3.

Samkvæmt því, sem fram kemur í málsskjölum, fól framkvæmdanefnd um einkavæðingu Verðbréfastofunni hf. að leggja mat á fimm atriði sem gera átti grein fyrir í áðurnefndum tilboðum. Við matið studdist Verðbréfastofan hf. við tiltekið vægi þessara atriða og ákvað röð tilboðsgjafanna. Í mati Verðbréfastofunnar hf. er ekkert það að finna, að áliti nefndarinnar, sem er þess eðlis að því skuli haldið leyndu með tilliti til hagsmuna annarra þátttakenda í útboðinu, sbr. 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga.

Tilboðslýsingar tilboðsgjafanna þriggja eru mjög mismunandi ítarlegar. Þar er gerð grein fyrir þeim fimm þáttum sem sem fram kom í auglýsingu að framkvæmdanefnd um einkavæðingu mundi leggja áherslu á við val á besta tilboði. Að áliti úrskurðarnefndar er þar ekki að finna upplýsingar um málefni fyrirtækjanna sem halda beri leyndum fyrir kæranda með tilliti til hagsmuna tilboðsgjafanna.

Með skírskotun til meginreglunnar í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga og þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar að framkvæmdanefnd um einkavæðingu sé skylt að veita kæranda aðgang að hinum umbeðnu gögnum.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu ber að veita kæranda, [ A] ehf. og [ B] ehf. aðgang að mati Verðbréfastofunnar hf. á tilboðum á hlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum hf. og að tilboðum annarra tilboðsgjafa.

Valtýr Sigurðsson, formaður

Ólafur E. Friðriksson

Steinunn Guðbjartsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum