Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2001 Forsætisráðuneytið

A-135/2001 Úrskurður frá 22. nóvember 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 22. nóvember 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-135/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 8. október sl., kærði […], til heimilis að […] í […], synjun rannsóknarnefndar flugslysa, dagsetta 20. september sl., um að veita honum aðgang, annars vegar, að ratsjárgögnum yfir aðflug fjögurra tilgreindra flugvéla að Reykjavíkurflugvelli að kvöldi 7. ágúst 2000 og, hins vegar, að "logbókum" flugvélarinnar [A].

Með bréfi, dagsettu 22. október sl., var kæran kynnt rannsóknarnefnd flugslysa og henni veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 31. október sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum, sem kæran laut að, innan sama frests. Að beiðni rannsóknarnefndarinnar var frestur þessi framlengdur til 7. nóvember sl. Þann dag barst umsögn hennar, dagsett sama dag. Síðar hefur rannsóknarnefndin látið í té ljósrit af bréfi hennar til rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík, dagsettu 21. maí sl.

Í fjarveru Valtýs Sigurðssonar tók Arnfríður Einarsdóttir, varamaður, sæti hans í úrskurðarnefnd við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik

Atvik málsins eru í stuttu máli þau að með tölvubréfi til formanns rannsóknarnefndar flugslysa, dagsettu 14. september sl., óskaði kærandi "eftir afriti gagna um ferla flugvélanna, [B], [C], [D] og [A] í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli að kvöldi 7. ágúst 2000, sérstaklega afriti af radargögnum á tölvutæku formi". Síðar fór kærandi fram á að fá afrit "af logbókum [A] sem fórst í [E] [dags.]", sbr. tölvubréf hans til formanns rannsóknarnefndarinnar, dagsett 17. september sl.

Rannsóknarnefnd flugslysa synjaði báðum erindum kæranda með bréfi, dagsettu 20. september sl. Rök nefndarinnar fyrir synjuninni voru m.a. þau að flugslys það, sem varð í [E] [dags.], sæti opinberri rannsókn hjá lögreglustjóranum í Reykjavík. Af þeim sökum hafi lögreglustjóranum verið afhent öll þau gögn rannsóknarinnar, sem hann hafi beðið um og rannsóknarnefndin hafi talið að hún mætti afhenda, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 59/1996 um rannsókn flugslysa. Því eigi upplýsingalög nr. 50/1996 ekki við, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga og úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum nr. A-123/2001, A-124-2001 og A-125/2001.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar hefur kærandi upplýst að hann sé faðir eins þeirra sem lést af völdum áverka er hann hlaut í umræddu flugslysi. Með skírskotun til þess hefur kærandi farið fram á að fjallað verði um rétt hans til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, með tilliti til hagsmuna hans sem lögerfingja sonar síns. Í kærunni er málsástæðum rannsóknarnefndarinnar vísað á bug og dregið í efa að þær geti átt við um öll þau gögn sem málinu tengjast.

Í umsögn rannsóknarnefndar flugslysa til úrskurðarnefndar, dagsettri 7. nóvember sl., eru fyrri ástæður synjunar nefndarinnar áréttaðar. Í umsögninni kemur ennfremur fram að frumgögn ratsjárgagna séu ekki í vörslum rannsóknarnefndarinnar, heldur Flugmálastjórnar. Sú stofnun ráði yfir sérhæfðum tækjabúnaði til að taka upp og endurspila ratsjármyndir og hafi rannsóknarnefndin einungis aðgang að honum, eftir því sem þörf krefur. "Nefndarmenn skrá niður þau atriði sem máli skipta við endurspilun þessara gagna og fá jafnframt útprentun af þeim skjámyndum sem nefndin telur að mundi gagnast í rannsókn sinni. Þessi afrit eru aðeins brot af þeim upplýsingum sem koma fram á frumgögnunum sem aðeins eru til hjá Flugmálastjórn", segir orðrétt í umsögninni.

Að ósk úrskurðarnefndar hefur lögreglustjórinn í Reykjavík staðfest í bréfi til nefndarinnar, dagsettu 15. nóvember sl., að mál vegna umrædds flugslyss hafi verið til rannsóknar hjá embættinu og sé enn ólokið. Í bréfi rannsóknarnefndar flugslysa til rannsóknardeildar lögreglunnar kemur fram að nefndin hafi afhent lögreglunni "frumrit viðhaldshandbókar og dagbækur (Aircraft Maintenance Records) flugvélarinnar [A]". Er móttaka þessara gagna staðfest með undirritun lögreglumanns.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin gildi ekki um "rannsókn eða saksókn í opinberu máli." Staðfest er, m.a. með fyrrgreindu bréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettu 15. nóvember sl., að yfir stendur lögreglurannsókn á flugslysi því sem varð í [E] hinn [dags.]. Eins og gerð er grein fyrir í lýsingu málsatvika hér að framan, hefur rannsóknarnefnd flugslysa afhent lögreglu frumrit viðhaldshandbókar og dagbóka flugvélarinnar [A] sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að.

Með skírskotun til þessa verður synjun rannsóknarnefndarinnar um aðgang að þessum gögnum ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ber því að vísa frá úrskurðarnefnd þeim hluta kærunnar sem varðar þennan þátt málsins.
2.

Í 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga er að finna svohljóðandi ákvæði: "Þegar farið er fram á aðgang að gögnum um mál þar sem taka á eða tekin hefur verið ákvörðun um rétt eða skyldu manna skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skal beiðni beint til þess stjórnvalds sem hefur gögnin í sínum vörslum."

Í umsögn rannsóknarnefndar flugslysa, dagsettri 7. nóvember sl., kemur fram að frumgögn ratsjárgagna þeirra, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, séu ekki í vörslum rannsóknarnefndarinnar, heldur Flugmálastjórnar. Ennfremur má ráða það af umsögninni að afrit þau, sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum, séu aðeins hluti af þeim gögnum sem um er að ræða. Samkvæmt því hefði kærandi átt að beina beiðni sinni til Flugmálastjórnar, en ekki rannsóknarnefndarinnar, svo sem hann gerði, sbr. niðurlag 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga.

Vegna þess að ekki liggur fyrir synjun Flugmálastjórnar um að veita kæranda aðgang að hinum umbeðnu ratsjárgögnum verður ekki hjá því komist að vísa einnig frá úrskurðarnefnd þeim hluta kærunnar, sem varðar þennan þátt málsins, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Með vísun til 7. gr. stjórnsýslulaga hefði rannsóknarnefnd flugslysa átt að benda kæranda á að beina beiðni sinni til Flugmálastjórnar, sbr. 1. mgr. 7. gr., eða framsenda beiðnina á réttan stað, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Þar eð rannsóknarnefndin gerði hvorugt hefur hún brugðist leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda samkvæmt stjórnsýslulögum. Er það aðfinnsluvert.

Úrskurðarorð:

Kæru […] á hendur rannsóknarnefnd flugslysa er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Arnfríður Einarsdóttir
Elín Hirst

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum