699/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017

Kærð var synjun Þingvallaþjóðgarðs og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni kæranda um afhendingu gagna er varða kaup ríkisins á sumarhúsi á Valhallarstíg nyrðri 13 og niðurrif á því. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að hvorki Þingvallaþjóðgarður, Þingvallanefnd né íslenska ríkið geti talist eiga mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna að gæta af því að upplýsingar um kaup hins opinbera á fasteign fari leynt í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Almenningur hafi hins vegar ríka hagsmuni af því að geta kynnt sér gögn um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Var því lagt fyrir Þingvallaþjóðgarð að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að gagnabeiðni kæranda hafi meðal annars tekið til afrits af tilboði í niðurrif hússins og upplýsinga um hvernig stæði til að ganga frá lóðinni og nýta hana. Úrskurðarnefndin taldi ekki að öllu leyti ljóst hvort Þingvallanefnd hefði undir höndum gögn sem gætu veitt kæranda upplýsingar um þessi atriði. Var því lagt fyrir Þingvallanefnd að afgreiða beiðni kæranda að þessu leyti að nýju.

Úrskurður

Hinn 27. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 699/2017 í máli ÚNU 17030004.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 15. mars 2017, kærði A, blaðamaður, synjun Þingvallaþjóðgarðs og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á beiðni um afhendingu gagna er varða kaup ríkisins á sumarhúsi á Valhallarstíg nyrðri 13 og niðurrif á því.

Með tölvupósti dags 10. febrúar 2017 óskaði kærandi eftir upplýsingum og gögnum frá Þingvallaþjóðgarði og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu varðandi framkvæmdir við niðurrif húss í þjóðgarðinum. Kærandi óskaði eftir því að honum yrði afhent afrit eftirfarandi gagna:

  1. Auglýsingar þar sem óskað var tilboða í verkefnið
  2. Tilboð sem tekið var vegna verksins
  3. Kaupsamningur vegna kaupa ríkisins á húsinu
  4. Samskipti Þingvallaþjóðgarðs og ráðuneytis vegna kaupanna

Þann 22. febrúar 2017 barst kæranda svar frá Þingvallanefnd þar sem fjallað var almennt um niðurrif hússins. Kærandi svaraði samdægurs og spurði hvort vænta mætti umbeðinna gagna. Þann 1. mars 2017 sendi kærandi umhverfis- og auðlindaráðuneytinu tölvupóst þar sem hann sagðist ekki hafa fengið svar við gagnabeiðninni og óskaði eftir því að ráðuneytið hlutaðist til um að honum yrði afhent gögnin. Ráðuneytið svaraði með tölvupósti þann 2. mars 2017 þar sem kæranda var bent á að ef hann teldi svör þjóðgarðsins ófullnægjandi væri sá möguleiki fyrir hendi að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þann 3. mars 2017  óskaði kærandi eftir því við ráðuneytið að það staðfesti að verið væri að synja honum um afhendingu gagna. Þann 6. mars 2107 sagði ráðuneytið að öll gögn sem óskað væri eftir væru í vörslu Þingvallaþjóðgarðs en ekki ráðuneytisins. Bent var á að Þingvallaþjóðgarði sé skylt að afhenda gögn nema undantekningar eigi við samkvæmt upplýsingalögum. Með fyrra erindi hefði ráðuneytið leitast við að uppfylla leiðbeiningarskyldu sína.

Í kæru er þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál leggi fyrir Þingvallaþjóðgarð að afhenda umbeðin gögn séu þau á annað borð til en tekið er fram að þjóðgarðsvörður hafi upplýst um að ekki hafi verið óskað tilboða í niðurrif hússins.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 20. mars 2017, var kæran kynnt þjóðgarðsverði og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Þess var jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum í trúnaði.

Umsögn Þingvallanefndar er dagsett 27. mars 2017. Þar kemur fram að þjóðgarðsvörður telji kaupsamning um Valhallarstíg 13 undanþeginn upplýsingarétti almennings á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem hann varði fjárhagsmálefni sem eðlilegt sé að leynt fari. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi litið svo á að komi opinberir aðilar fram eins og hverjir aðrir einkaaðilar við kaup og sölu fasteigna séu upplýsingar um kaup- og söluverð og upplýsingar um greiðsluskilmála þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt. Vísað er til úrskurðar nefndarinnar nr. A-90/2000 þessu til stuðnings. Hvað varðar samskipti ráðuneytis og þjóðgarðsins vegna kaupa á fasteigninni telur þjóðgarðsvörður að þau teljist til einkamálefna þjóðgarðsins sem eðlilegt sé að fari leynt, sbr. ákvæði 9. gr. upplýsingalaga. Um afrit af auglýsingu þar sem óskað er tilboða í niðurrif hússins og afrit af tilboði því er tekið var væri vísað til svars til kæranda, dags. 22. mars 2017. Eins og sjá megi af þeim samskiptum væru gögnin ekki fyrirliggjandi, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, en ekki sé gerð sú krafa að stjórnvald útbúi sérstaklega gögn vegna fyrirspurnar. Umsögn Þingvallanefndar fylgdu eftirfarandi gögn sem afhent voru úrskurðarnefnd um upplýsingamál í trúnaði:

  1. Kaupsamningur og afsal, dags. 29. apríl 2014
  2. Bréf þjóðgarðsvarðar til forsætisráðuneytisins, dags. 11. febrúar 2014

Umsögn Þingvallanefndar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 27. mars 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um rétt kæranda, blaðamanns, til aðgangs að upplýsingum um kaup íslenska ríkisins á fasteign innan Þingvallaþjóðgarðs. Af hálfu Þingvallanefndar, sem fer með yfirstjórn garðsins, er vísað til þess að um einkamálefni þjóðgarðsins sé að ræða í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af samhengi verður að ætla að átt sé við mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni samkvæmt 2. málslið ákvæðisins. Samkvæmt honum er stjórnvöldum óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur eftirfarandi m.a. fram:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Þingvallanefnd hefur vísað til þess að ákvæðið hafi verið túlkað þannig að þegar opinberir aðilar komi fram eins og hverjir aðrir einkaaðilar við kaup og sölu fasteigna geti upplýsingar um kaup- og söluverð og upplýsingar um greiðsluskilmála verið þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt í skilningi þess. Einkum er hér um að ræða nokkra úrskurði nefndarinnar frá fyrstu starfsárum hennar, til að mynda úrskurði nr. A-12/1997, A-34/1997, A-63/1998 og A-90/2000. Í öllum þessum málum var hins vegar fjallað um hagsmuni viðsemjenda hins opinbera af því að upplýsingar um viðskiptin færu leynt. Þingvallaþjóðgarður, Þingvallanefnd eða íslenska ríkið geta hins vegar ekki talist eiga mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna að gæta af því að upplýsingar um kaup hins opinbera á fasteign fari leynt í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Almenningur hefur hins vegar ríka hagsmuni af því að geta kynnt sér gögn um ráðstöfun opinberra hagsmuna eins og úrskurðarnefndin hefur lagt áherslu á í úrskurðarframkvæmd sinni. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi að þessu leyti og lagt fyrir Þingvallaþjóðgarð að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Af hálfu Þingvallanefndar hefur komið fram að ekki hafi verið óskað tilboða vegna þess verks að láta rífa húsið. Í umsögn nefndarinnar segir að vegna þessa séu umbeðin gögn ekki fyrirliggjandi að þessu leyti í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að gagnabeiðni kæranda hafi meðal annars tekið til afrits af tilboði í verkið og upplýsinga um hvernig ætlunin sé að ganga frá lóðinni og nýta hana. Ekki er að öllu leyti ljóst hvort Þingvallanefnd hafi undir höndum gögn sem geta veitt kæranda upplýsingar um þessi atriði, til að mynda verksamning við aðilann sem samið var við eða fundargerðir þar sem fjallað er um framkvæmdina. Er því lagt fyrir Þingvallanefnd að afgreiða beiðni kæranda að þessu leyti að nýju, hafi svo ekki þegar verið gert.

Úrskurðarorð:

Þingvallanefnd ber að veita kæranda, A, blaðamanni, aðgang að kaupsamningi og afsali vegna kaupa á fasteign að Valhallarstíg nyrðri nr. 13, Bláskógabyggð, dags. 29. apríl 2014 og bréfi þjóðgarðsvarðar til forsætisráðuneytis, dags. 11. febrúar 2014.

Beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um heildarkostnað við niðurrif hússins, hvernig ætlunin sé að ganga frá lóðinni og nýta hana og afriti af því tilboði sem tekið var er vísað til nýrrar meðferðar hjá Þingvallanefnd.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Til baka Senda grein