698/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017

Kærð var afgreiðsla Bílastæðasjóðs Reykjavíkur á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum og gögnum um stöðumælasektir í Reykjavíkurborg. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál leit svo á að beiðni kæranda lyti ekki að því að fá í hendur öll gögn um stöðumælasektir í vörslum Bílastæðasjóðs, heldur að upplýsingar yrðu teknar saman. Þar sem umbeðið gagn var ekki talið fyrirliggjandi var kæru kæranda vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurður

Hinn 27. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 698/2017 í máli ÚNU 17030002.

Kæra og málsatvik

Með erindi er barst þann 3. mars 2017 kærði A afgreiðslu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur á beiðni hans um aðgang að upplýsingum og gögnum um stöðumælasektir í Reykjavíkurborg á árinu 2016 eða nokkur ár aftur í tímann, eftir því hvað væri aðgengilegt. Með beiðninni, dags. 2. mars 2017, óskaði kærandi eftir upplýsingum frá Bílastæðasjóði um stöðumælasektir í töfluformi þar sem fram kæmu t.d. staðsetning, tímasetning, dagsetning, tegund og litur ökutækis, númer og staðsetning stöðumælis, þ.e. allar þær upplýsingar sem geymdar væru í tengslum við hverja sekt.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 3. mars 2017, segir að ekki sé hægt að senda sundurliðað yfirlit yfir öll gjöld en hins vegar yrði athugað hvort mögulegt væri birta heildarfjölda gjalda eftir mánuðum/árum á heimasíðu Bílastæðasjóðs. Umbeðin gögn væru hins vegar ekki fyrirliggjandi hjá sjóðnum.

Í kæru krefst kærandi þess að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur verði snúið við og umbeðin gögn afhent á þeirri forsendu að þau séu fyrirliggjandi. Segist kærandi byggja þá ályktun á þeirri staðreynd að stöðumælasektir hafi verið útbúnar með rafrænum hætti í nokkur ár. Á öllum stöðumælasektum komi m.a. fram upplýsingar um tegund stöðugjalds, dagsetningu, tímasetningu, tegund ökutækis, lit ökutækis, númer mælis, staðsetningu mælis og nánari skýring. Kærandi telur því ljóst að umbeðin gögn séu vistuð rafrænt og því fyrirliggjandi.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Bílastæðasjóði Reykjavíkur með bréfi, dags. 10. mars 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í umsögn Bílastæðasjóðs, dags. 24. mars 2017, er vísað til þess að um það bil eitt hundrað þúsund aukastöðugjöld séu lögð á ár hvert. Haldið sé utan um hvert og eitt mál á kennitölu eigenda bifreiða en ekki hafi verið tekið saman yfirlit yfir öll útgefin stöðvunarbrotagjöld í Reykjavík. Þá er einnig tekið fram að Bílastæðasjóður búi ekki yfir fyrirliggjandi gögnum sem innihaldi þær upplýsingar sem kærandi krefst og því sé hvorki möguleiki á að afhenda úrskurðarnefndinni né kæranda umbeðin gögn án þess að lögð yrði í það umtalsverð og kostnaðarsöm vinna sem raska myndi starfseminni. Kæranda hafi verið tjáð að ekki væri unnt að afhenda honum sundurliðað yfirlit yfir öll gjöld en honum þess í stað boðið að afmarka beiðni sína við yfirlit yfir heildarfjölda gjalda eftir mánuðum eða árum. Þess er krafist að annað hvort verði kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni eða ákvörðun um synjun beiðni kæranda staðfest.

Með erindi, dags. 11. apríl 2017, var umsögn Bílastæðasjóðs kynnt kæranda og honum veittur kostur á að koma fram frekari athugasemdum. Þær bárust þann 19. apríl 2017. Þar kemur fram að Bílastæðasjóður hafi ekki boðið kæranda að afmarka beiðni sína nánar, sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Auk þess bendir kærandi á að upplýsingar um fjölda sekta og upphæðir þeirra liggi fyrir hjá Bílastæðasjóði en heildartekjur vegna sekta séu birtar í ársreikningum sjóðsins. Umbeðin gögn séu því fyrirliggjandi að hluta og á Bílastæðasjóði hvíli skylda skv. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga til að veita aðgang að þeim. Að lokum dregur kærandi það í efa að vinnan við að taka upplýsingarnar saman raski starfsemi Bílastæðasjóðs þar sem skylt sé að halda upplýsingunum til haga, sbr. lög nr. 3/2006 um ársreikninga. Kærandi ítreki því fyrri ósk sína um að Bílastæðasjóður afhendi sundurliðað yfirlit yfir stöðvunarbrotsgjöld í Reykjavík með þeim upplýsingum sem eru sannarlega fyrirliggjandi í rafrænum kerfum sjóðsins.

Niðurstaða

Í máli  þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um álagningu stöðumælasekta í vörslum Bifreiðasjóðs Reykjavíkur. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lítur svo á að beiðni kæranda lúti ekki að því að fá í hendur öll gögn um stöðumælasektir í vörslum Bílastæðasjóðs, heldur að sjóðurinn taki saman í töfluformi upplýsingar úr þeim. Þannig segir orðrétt í beiðni kæranda að hann sé að „leita að töflu þar sem hver stöðumælasekt væri ein lína, og dálkarnir væru t.d. […]“.

Bílastæðasjóður hefur vísað til þess að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Af ákvæðinu leiðir að almenningur á rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda. Stjórnvöldum er hins vegar hvorki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum á grundvelli ákvæðisins. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að gagn teljist ekki fyrirliggjandi nema það hafi verið til þegar beiðni um aðgang að því kom fram. Af hálfu Bílastæðasjóðs hefur komið fram að haldið sé utan um hvert og eitt mál á kennitölu eigenda bifreiða. Sjóðurinn hafi ekki tekið saman yfirlit yfir öll útgefin stöðvunarbrotagjöld í Reykjavík. Ekki er ástæða til að draga þær skýringar Bílastæðasjóðs í efa.

Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að umbeðin gögn kæranda séu ekki í vörslum Bílastæðasjóðs. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Því liggur ekki fyrir synjun á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og verður því ekki hjá því komist að vísa kæru frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Í kæru sinni vísar kærandi til 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem segir að stjórnvaldi beri að veita málsaðila leiðbeiningar og færi á að afmarka beiðni sína nánar áður en kæru verði vísað frá ef ekki er talið mögulegt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Með vísan til þeirrar niðurstöðu að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá Bílastæðasjóði verður ekki talið að skylt hafi verið að veita kæranda færi á að afmarka beiðni sína nánar á grundvelli ákvæðisins.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 3. mars 2017, á hendur Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar.


Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Til baka Senda grein