695/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017

Deilt var um afgreiðslu Þingeyjarsveitar á beiðni um afrit af öllum gögnum í tengslum við samning sveitarfélagsins við Landsnet hf. frá 26. september 2014 um fébætur vegna lagningar háspennulínu um jörðina Þeistareyki. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi sig ekki hafa forsendur til að rengja þær staðhæfingar sveitarfélagsins að öll gögn hefðu verið afhent kæranda. Var því kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurður

Hinn 27. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 695/2017 í máli ÚNU 16120002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 6. desember 2016, kærðu umhverfisverndarsamtökin Landvernd afgreiðslu Þingeyjarsveitar á beiðni um afrit af öllum gögnum í tengslum við samning sveitarfélagsins við Landsnet hf. frá 26. september 2014 um fébætur vegna lagningar háspennulínu um jörðina Þeistareyki.

Í kæru kemur fram að hinn 29. september 2014 hafi sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samið við Landsnet um greiðslu vegna lagningar 220 kV loftlína og ljósleiðara. Samningurinn hafi verið nefndur samningur um fébætur og hafi Landsnet greitt sveitarfélaginu umsamda fjárhæð hinn 14. október 2014. Hinn 23. desember 2014 hafi Landsnet greitt sveitarfélaginu viðbótargreiðslu. Kærandi kveðst hafa hinn 19. október 2016 óskað eftir afriti af samningnum og upplýsingum um greiðslur. Þær upplýsingar hafi borist þann 21. október 2016 og hafi kærandi samdægurs óskað eftir samningi um viðbótargreiðsluna. Þann 3. nóvember 2016 hafi kæranda borist það svar að ekki lægi fyrir samkomulag um viðbótargreiðsluna en að hún væri í samræmi við fyrirvara í samningi kærða við Landsnet. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2016, hafi kærandi óskað eftir öllum gögnum varðandi samninginn. Þann 1. desember 2016 hafi borist það svar frá sveitarstjóra að hann teldi sig hafa afhent kæranda öll gögn um samninginn.

Kærandi byggir rétt sinn til aðgangs að upplýsingum á 5. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál. Kærandi bendir á skyldu sveitarfélagsins til að halda skrá um mál og varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg en kærði lúti reglum IV. kafla laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og ákvæði 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Bent er á að málið varði samninga og greiðslur upp á tæpar 30 milljónir króna og telur kærandi útilokað að slík samningsgerð hafi farið fram án þess að gögn hafi orðið til í kringum hana, svo sem fundarboð, tölvupóstar, dagbókarfærslur, minnisblöð o.s.frv. Kærandi byggir á því að svör kærða við beiðni um upplýsingar jafngildi synjun á afhendingu gagna, m.a. tölvupósta, munnlegra og skriflegra samskipta við viðsemjanda sinn, Landsnet og aðra aðila er málinu kunna að tengjast og allra annarra gagna í málinu.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Þingeyjarsveit með bréfi, dags. 13. desember 2016, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að í trúnaði.

Í umsögn Þingeyjarsveitar, dags. 20. desember 2016, kemur fram að sveitarfélagið hafi ekki synjað kæranda um gögn. Sveitarfélagið hafi hins vegar hafnað því að vinnugögn í tengslum við málið væru fyrirliggjandi. Vegna þessa sé eðlilegt að kærumálið verði fellt niður. Fram kemur að í júní 2014 hafi Landsnet haft samband við sveitarfélagið um gerð samnings um fébætur vegna háspennulína innan jarðarinnar Þeistareykja. Sveitarstjóri hafi átt fund með fulltrúum Landsnets þann 25. júní 2014 og hafi Landsnet sent Þingeyjarsveit fundargerð fundarins. Með tölvupóstum í september 2014 hafi verið ákveðið að koma á fundi þann 23. september 2014. Fulltrúar Landsnets og Þingeyjarsveitar hafi mætt til fundarins og hafi þar verið lögð fram drög að samningi um uppgjör fébóta og þinglýsanlegri yfirlýsingu. Ekki hafi verið skráð fundargerð. Eftir fundinn hafi Þingeyjarsveit borist undirrituð drög að samningi af hálfu Landsnets. Á sveitarstjórnarfundi, dags 2. október 2014, hafi verið bókað að Þingeyjarsveit hafi staðfest samninginn og sveitarstjóri undirritað gögnin í kjölfarið. Greiðslur hafi borist 14. október 2014 og viðbótargreiðsla þann 23. desember 2014, en viðbótargreiðslan sé vegna samningsákvæðis um hækkun greiðslna ef Landsnet greiddi öðrum aðilum hærra verð fyrir land.

Með umsögn Þingeyjarsveitar fylgdu eftirfarandi gögn, en í umsögninni er tekið fram að gögnin hafi þegar verið afhent kæranda:

  1. Tölvupóstsamskipti, dags 23. og 24. júní 2014, milli fulltrúa Landsnets og Þingeyjarsveitar
  2. Fundargerð fundar, dags. 25. júní 2014, sem unnin hafi verið af fulltrúa Landsnets
  3. Tölvupóstsamskipti, dags. 16-18. september 2014
  4. Drög að samningi um uppgjör fébóta, send af fulltrúa Landsnets hf.
  5. Drög að þinglýsanlegri yfirlýsingu, send af fulltrúum Landsnets hf.
  6. Afrit undirritaðs samnings um uppgjör fébóta og yfirlýsingu dags. 26. september 2016
  7. Fundarboð sveitarstjórnarfundar, dags. 2. október 2014
  8. Fundargerð sveitarstjórnar, dags. 2. október 2014.
  9. Tölvupóstsamskipti, dags. 6. október 2014 um sendingu gagnanna.

Umsögn Þingeyjarsveitar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 2. janúar 2017, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 17. janúar 2017. Þar segist kærandi hafa móttekið gögn frá sveitarfélaginu en engin gögn hafi borist varðandi viðbótargreiðsluna. Tekið er fram að kærandi hafi óskað eftir afriti af samningi um viðbótargreiðsluna hinn 21. október 2016 og ítrekað fyrirspurnina þann 2. nóvember 2016. Um sé að ræða breytingu á samningi sem feli í sér meira en 50% hækkun bótagreiðslna. Kærandi segir ekkert hafa verið upplýst um viðbótargreiðsluna annað en fjárhæð hennar og dagsetningu. Forsendur útreikninga fjárhæðarinnar liggi ekki fyrir og ekki hafi verið afhent gögn sem orðið hafi til í tengslum við samskipti milli samningsaðila. Því geti kærandi ekki dregið kæru sína til baka. Í athugasemdunum lýsir kærandi því yfir að hann fallist á að þau gögn sem honum hafi verið send séu tæmandi að því er varði samningsgerðina, að undanskildum upplýsingum um viðbótargreiðsluna í desember 2014 og samningagerð um hana.

Með bréfi, dags. 6. júlí 2017, fór úrskurðarnefnd um upplýsingamál þess á leit við Þingeyjarsveit að upplýst yrði hvort önnur gögn væru fyrirliggjandi varðandi viðbótargreiðsluna en þau sem afhent voru kæranda og úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Í bréfi lögmanns sveitarfélagsins, dags. 24. júlí, er ítrekað að upplýsingar um viðbótargreiðsluna hafi verið kynntar kæranda, þ.e. upplýsingar um fjárhæð og dagsetningu greiðslunnar. Ekki væru fyrirliggjandi gögn um útreikninga viðbótargreiðslunnar eða forsendur slíkra útreikninga.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Þingeyjarsveitar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem urðu til í tengslum við samning sveitarfélagsins við Landsnet hf. frá 26. september 2014. Kærandi hefur fallist á að sveitarfélagið hafi afhent gögn sem varði samningsgerðina að undanskildum gögnum um viðbótargreiðslu sem innt hafi verið af hendi í desember 2014. Sveitarfélagið telur sig aftur á móti hafa afhent öll fyrirliggjandi gögn er málinu tengjast.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum með þeim takmörkunum sem leiða af ákvæðum laganna. Stjórnvöldum er að jafnaði ekki skylt að afla sérstaklega upplýsinga til þess að láta almenningi þær í té eða útbúa gögn. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 23/2006 er heimilt að bera synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að upplýsingum um umhverfismál undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Þá er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum skv. upplýsingalögum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn, sbr. 20. gr. laga nr. 140/2012 en hið sama gildir um synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Af hálfu Þingeyjarsveitar hefur komið fram að sveitarfélagið hafi afhent kæranda öll fyrirliggjandi gögn og upplýsingar er falla undir beiðni hans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar sveitarfélagsins. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eða upplýsingar eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds að ræða í skilningi 1. mgr. 15. gr. laga nr. 23/2006 og 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru Landverndar, dags. 6. desember 2016, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Til baka Senda grein