694/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017

Úrskurður

Hinn 27. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 694/2017 í máli ÚNU 16120001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. desember 2016, kærði A hrl., f.h. Rasks ehf., synjun Seðlabanka Íslands á beiðni um aðgang að gögnum. Með beiðni kæranda, dags. 14. september 2015, var óskað eftir aðgangi að gögnum í vörslum bankans um heimildir Klakka til útgreiðslu úr nauðasamningi til kröfuhafa en sérstaklega eftir gögnum tilgreindum í fjórum töluliðum. Seðlabankinn synjaði kæranda um afhendingu gagnanna með ákvörðun, dags. 29. október 2015, að frátöldu einu skjali sem bankinn sagði þegar hafa verið afhent. Bankinn taldi þann hluta beiðninnar sem tók til „allra álita, úrskurða, túlkana, tilmæla og hvaðeina sem bankinn hefði látið frá sér fara um heimildir Klakka til útgreiðslna úr nauðasamningi til kröfuhafa“ ekki nægilega skýran með tilliti til 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 645/2016 frá 20. september 2016 var lagt fyrir Seðlabankann að taka beiðni kæranda til nýrrar afgreiðslu að því er varðar framangreindan hluta hennar. Þann 7. nóvember 2016 tók bankinn ákvörðun um synjun beiðninnar á grundvelli þagnarskylduákvæða 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 og 15. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992.

Í kæru kemur fram að kærandi byggi á meginreglu 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 auk 5. gr. laganna um rétt til aðgangs að gögnum. Kærandi telur umbeðin gögn varða hann með beinum hætti þótt hann sé ekki aðili að málinu, en það varðar heimildir Klakka til útgreiðslna úr nauðasamningi. Kærandi sé hins vegar meðal kröfuhafa í Klakka og hafi því sérstaka hagsmuni af úrlausnum Seðlabanka Íslands um nauðasamning félagsins. Þá séu ekki rök fyrir því að takmarka upplýsingarétt hans með vísan til ákvæða laga um þagnarskyldu í lögum nr. 36/2001 og 87/1992. Ákvæðin séu ekki fortakslaus og heimili bankanum meðal annars að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum sem byggja á gjaldeyrislögum. Þá sé þagnarskylda ekki meðal þeirra atriða sem geti takmarkað heimild bankans til birtingar, sbr. 16. gr. d. laga nr. 87/1992. Engin atriði sem ákvæðið nefni séu til staðar. Kærandi ítrekar því kröfu sína um afhendingu gagnanna, en til vara krefst hann þess að þau verði afhent án persónugreinanlegra upplýsinga.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Seðlabanka Íslands með bréfi, dags. 13. desember 2016, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að. Umsögn bankans og afrit umbeðinna gagna bárust þann 16. janúar 2017. Í umsögninni er forsaga málsins rakin og gerð stuttlega grein fyrir ágreiningsefninu. Fram kemur að Seðlabankinn hafi farið í gegnum gagnasöfn sín og tekið saman þau gögn sem tengjast útgreiðslum Klakka úr nauðasamningi umfram þau sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi þegar úrskurðað um. Um talsvert magn gagna sé að ræða og sé sumum málanna lokið en öðrum ekki.

Seðlabankinn leggur áherslu á þagnarskylduna sem hvíli á starfsmönnum bankans samkvæmt lögum nr. 36/2001 og nr. 87/1992. Ákvæðin séu sérstök þagnarskylduákvæði og geti því ein og sér komið í veg fyrir að almenningi verði veittur aðgangur að gögnum í vörslum stjórnvalda. Um 15. gr. laga nr. 87/1992 vísar bankinn til úrskurða nr. 645/2016 og 665/2016. Þá vísar bankinn til þess að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila samkvæmt 2. máls. 9. gr. laga nr. 140/2012.

Seðlabanki Íslands hafnar röksemdum kæranda sem lúta að því að þagnarskylda bankans sé ekki fortakslaus með vísan til 16. gr. d. laga nr. 87/1992. Ákvæðið kveði á um heimild bankans til opinberrar birtingar upplýsinga en ekki skyldu. Birting fari ekki fram nema bankinn ákveði það sérstaklega og slík birting taki mið af þeirri ríku þagnarskyldu sem hvíli á bankanum.

Umsögn Seðlabanka Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. janúar 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi hennar. Þær bárust þann 1. febrúar 2017. Þar er meðal annars vikið að forsendum úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 645/2016. Ekki fáist betur séð en að Seðlabanki Íslands hafi veitt úrskurðarnefndinni rangar upplýsingar um hvort rannsókn bankans á meintum brotum Klakka gegn gjaldeyrislögum hafi verið lokið. Bankinn hafi sent Klakka tilkynningu um niðurstöður rannsóknar, dags. 5. júní 2015, þar sem fram komi að bankinn hafi lokið rannsókn málsins. Umsögn Seðlabanka til úrskurðarnefndarinnar sé hins vegar dagsett 18. desember 2015. Þá virðist tilkynningin heldur ekki hafa borist úrskurðarnefndinni. Kærandi telur þannig að Seðlabanki Íslands hafi brotið gegn 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Kærandi tekur einnig fram að með tilkynningu Seðlabanka Íslands til Klakka, dags. 15. mars 2016, hafi mál á hendur félaginu verið fellt niður. Gögn samkvæmt fyrsta tölulið gagnabeiðninnar liggi því fyrir.

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að gögnum í vörslum Seðlabanka Íslands. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lítur svo á, líkt og í fyrri úrskurði nefndarinnar nr. 645/2016, að samkvæmt efni beiðninnar og stöðu kæranda gagnvart Seðlabankanum uppfylli hann skilyrði þess að með kæru hans verði farið samkvæmt ákvæðum 14. gr. upplýsingalaga. Seðlabanki Íslands byggir á því að takmarka beri aðgang kæranda að umbeðnum gögnum með vísan til ákvæða 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 og 15. gr. laga nr. 87/1992 auk 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

2.

Í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 segir orðrétt:

„Bankaráðsmenn, seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, nefndarmenn í peningastefnunefnd og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.“

Í dómi Hæstaréttar Íslands 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að í ákvæðinu felist regla um sérstaka þagnarskyldu en ekki almenna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur byggt á því að þagnarskyldan sé sérgreind með þeim hætti að hún nái til upplýsinga sem varða hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs og annars þess sem starfsmenn bankans fá vitneskju um í starfi og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Með þessu er þó ekki sagt að hvaðeina sem bankanum tengist með einum eða öðrum hætti falli undir þagnarskylduna. Undir orðlagið „málefni bankans sjálfs“ kunna að falla upplýsingar um fjárhagsleg málefni eða fjárhagslegar ráðstafanir bankans, um beinar ákvarðanir sem varða starfsemi hans eða undirbúning þeirra og eftir atvikum aðrar upplýsingar sem telja má eðlilegt að leynt fari. Nái þagnarskylda ákvæðisins ekki til ákveðinna tilvika geta aðrar undantekningar frá upplýsingarétti átt við, t.d. 6.-10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. 

Í 15. gr. laga nr. 87/1992 segir:

„Þeir sem annast framkvæmd þessara laga eru bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.“

Ákvæðið telst einnig vera sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsinglaga um hagi einstakra viðskiptamanna, sem ber þó eftir atvikum að túlka til samræmis við ákvæði 5. gr. upplýsingalaga með sama hætti og 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Að öðru leyti felur ákvæðið í sér almenna þagnarskyldu sem takmarkar ekki rétt til aðgangs á grundvelli upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 140/2012.

3.

Seðlabanki Íslands hefur látið úrskurðarnefndinni í té afrit af þeim gögnum sem bankinn telur falla undir beiðni kæranda. Meðal afritanna eru gögn sem úrskurðarnefndin hafði undir höndum við úrlausn eldra máls aðila, sem lyktaði með úrskurði nr. 645/2016. Vegna athugasemda kæranda við umsögn Seðlabanka Íslands tekur úrskurðarnefndin fram að tilkynning bankans um niðurstöður rannsóknar, dags. 5. júní 2015, er á meðal þeirra gagna sem úrskurðarnefndin hefur fengið afhent.

Gögnin eiga það sameiginlegt að lúta að greiðslum úr nauðasamningi Klakka til kröfuhafa og hlutverki Seðlabanka Íslands við framkvæmd laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Einkum er um að ræða eftirfarandi mál:

  • Beiðni einstaklings til Seðlabanka Íslands um staðfestingu á heimilisfesti og stöðu

  • Beiðni Klakka til Seðlabanka Íslands um leiðbeiningar vegna greiðslna

  • Umsóknir Klakka og tengdra aðila til Seðlabanka Íslands um undanþágu frá ákvæðum laga nr. 87/1992

  • Rannsókn Seðlabanka á því hvort Klakki hafi framkvæmt fjármagnshreyfingar í bága við lög nr. 87/1992

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir gögnin og telur þau öll falla undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 og að hluta undir 15. gr. laga nr. 87/1992. Þar sem gögnin eru undirorpin sérstakri þagnarskyldu samkvæmt lögum nær réttur kæranda samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ekki til þeirra samkvæmt gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. laganna. Þetta á við um svo stóran hluta gagnanna að ekki þykja efni til að beita ákvæði 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga með því að leggja fyrir Seðlabanka Íslands að veita kæranda aðgang að hluta gagnanna á grundvelli þess lagaákvæðis.

Framangreint getur þó ekki átt við þann hluta umbeðinna gagna sem Seðlabanki Íslands hefur áður sent kæranda. Ekki heldur á það við gögn sem stafa frá kæranda, þar sem ekki verður talið að þau skuli fara leynt samkvæmt lögum eða eðli máls í skilningi 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 og 15. gr. laga nr. 87/1992. Verður því lagt fyrir bankann að veita kæranda aðgang að þeim hluta skjalanna á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga um rétt aðila til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Seðlabanka Íslands ber að veita kæranda, Raski ehf., aðgang að eftirfarandi gögnum:

  • Fylgiskjöl nr. 3 og 4 með bréfi B hdl. til Seðlabanka Íslands, dags. 5. mars 2015, beiðni um leiðbeiningar samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

  • Fylgiskjöl nr. 3, 4 og 6 í Viðauka III með bréfi B hdl. til Seðlabanka Íslands, dags. 14. apríl 2015, erindi vegna tilkynningar um upphaf máls og beiðni um upplýsingar og gögn

Að öðru leyti er hin kærða ákvörðun staðfest.


Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Til baka Senda grein