686/2017. Úrskurður frá 2. júní 2017

Kæru vegna beiðni um upplýsingar um umsækjendur í starf við félagslega liðleiðslu fyrir börn og fullorðna hjá Vestmannaeyjabæ var vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þar sem Vestmannaeyjabær hafði gefið þær skýringar að enginn hafi sótt um starfið. Lá því ekki fyrir synjun á afhendingu gagna, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga.

Úrskurður

Hinn 2. júní 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 686/2017 í máli ÚNU 16110007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 10. nóvember 2016, kærði A afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni hans um gögn. Með bréfi, dags. 1. nóvember 2016, óskaði kærandi eftir nöfnum þeirra sem sóttu um starf við félagslega liðsveislu fyrir börn og fullorðna. Erindi kæranda var svarað með bréfi dags. 4. nóvember þar sem fram kom að engar upplýsingar lægju fyrir um umsóknir í félagslega liðveislu. Í kæru segir kærandi það útilokað að engar upplýsingar liggi fyrir um umsóknir sem bárust um starf eftir að umsóknarfrestur fyrir starfið er liðinn. Er þess krafist að Vestmannaeyjabæ verði gert skylt að svara beiðni kæranda.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með bréfi dags. 22. nóvember 2016 og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Þess var jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum í trúnaði.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar, dags. 24. nóvember 2016, kemur fram að með svari bæjarins frá 1. nóvember um að „engar upplýsingar liggi fyrir um umsóknir í félagslega liðveislu“ hafi verið átt við að engar umsóknir um starf í félagslegri liðveislu hafi borist á þeim tíma sem erindinu var svarað.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um umsækjendur í starf félagslegrar liðveislu. 

Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Í umsögn Vestmannaeyjabæjar kemur fram að í svari bæjarins til kæranda þess efnis að engin gögn væru fyrirliggjandi hjá bænum er féllu undir gagnabeiðnina hafi falist að enginn hafi sótt um starfið á þeim tíma sem beiðninni var svarað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til að draga í efa þá staðhæfingu. Þau gögn sem kærandi óskaði eftir lágu því ekki fyrir hjá Vestmannaeyjabæ þegar beiðni kæranda var svarað. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 10. nóvember 2016, á hendur Vestmannaeyjabæ.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Til baka Senda grein